Simmi Vill Mosfellingur ársins

Mosfellingur ársins 2020 er veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson.
Simmi, eins og hann er alltaf kallaður, er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum en hefur búið í Mosfellsbæ frá árinu 2007. „Ég var að leita eftir þessum bæjarbrag og langaði að synir mínir myndu alast upp í svona samfélagi. Ég kann vel við það að þekkja nágranna mína og það fólk sem ég rekst á í búðinni. Það er hluti af því að tilheyra samfélagi að gefa af sér. Ég hef reynt að vera virkur í kringum íþróttastarf strákanna minna og er alltaf opinn fyrir góðum hugmyndum og skemmtilegu samstarfi,“ segir Simmi sem segist alls ekki getað flutt úr bænum núna eftir þessa nafnbót.

Út fjölmiðlum í veitingarekstur
Simmi hefur verið einn af okkar þekktustu fjölmiðlamönnum til margra ára en að undanförnu hefur hann átt mikilli velgengni að fagna í veitingarekstri.
„Ég hef brallað ýmislegt í gegnum tíðina en minn fyrsti sjálfstæði rekstur var þegar ég stofnaði Hamborgarafabrikkuna. Ég hef víðtæka reynslu og þegar ég stóð frammi fyrir því ásamt viðskiptafélaga mínum honum Óla Val að skipuleggja hvað skyldi gera við gamla Arion banka húsið þá kviknaði sú hugmynd að opna hverfisstað í Mosfellsbæ. Úr varð að við opnuðum Barion í lok árs 2019 ásamt því að reka Hlöllabáta í sama húsnæði.

Barion – hverfisstaður Mosfellinga
„Úr varð að við ákváðum að fara alla leið með hugmyndina, ég segi alltaf að þú færð ekki annað tækifæri á fyrstu hughrif. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin við Barion hafa verið fram út björtustu vonum, þrátt fyrir að standa frammi fyrir stórum rekstraráskorunum vegna COVID-19.
En í svona aðstæðum er einmitt spurning um að fara í var og bíða af sér storminn eða læra að dansa í rigningunni. Við fórum t.d. í gott samstarf við Aftureldingu. Það var fjáröflun fyrir félagið, bæjarbúar fengu aukna þjónustu og við náðum að halda dampi.“ Þá hafa Mömmumatur og Þristamús einnig átt vinsældum að fagna auk þess sem afurðir Barion og Hlöllabáta fást nú í verslunum.

Líf skapar líf
„Við lögðum upp með að skapa stað fyrir alla Mosfellinga, bjóðum upp á fjölbreyttan matseðil á góðu verði, góða þjónustu ásamt því að standa fyrir alls konar viðburðum.
Okkur hefur verið tekið rosalega vel og fyrir það erum við þakklátir. Á árinu opnuðum við einnig Barion Bryggjuna og Mini­garðinn, en þess má geta að höfuðstöðvar fyrirtækisins eru og verða í Mosó.
Simmi hefur að undanförnu vakið mikla athygli á Instagram þar sem hann er duglegur að deila frá sínu daglega lífi.
„Þetta gerðist nú eiginlega óvart og er bara skemmtileg viðbót við lífið. Ég kalla þetta mínar daglegu stuttmyndir,“ segir Simmi og er þakklátur fyrir viðurkenninguna.