Fyrsti Mosfellingur ársins 2021

Gunnar Malmquist, Aron Þór og Elín Huld.

Fyrsti Mosfellingur ársins fæddist kl. 00.55 þann 2. janúar. Það er hraustur og flottur drengur sem mældist 50 cm og 3.300 gr.
Foreldrar hans eru handboltamaðurinn Gunnar Malmquist Þórisson og Elín Huld Sigurðardóttir, drengurinn er þeirra fyrsta barn. „Við ákváðum að nota tækifærið og tilkynna nafnið hans í Mosfellingi þar sem þetta er fyrsti en örugglega ekki síðasti titillinn sem hann fær.
Hann heitir Aron Þór Malmquist Gunnarsson, það er í höfðuðið á frændum mínum, landsliðsfyrirliðunum Aroni Einari knattspyrnumanni og Arnóri Þór handknattleiksmanni. Þórsnafnið er líka í höfuðið á pabba mínum og svo er Þór Akureyri uppeldisfélagið mitt.

Fyrsti titillinn kominn í hús
Hann átti ekki að fæðast fyrr en 7. janúar en hefur viljað ná þessum titli, ætli hann eigi svo ekki eftir að verða fyrirliði í framtíðinni,“ segir Gunnar stoltur.
Fjölskyldan flutti nýverið í Mosfellsbæ en Gunnar hefur spilað handbolta með Aftureldingu sl. 6 ár. „Það er algjör draumur að búa hérna, ég sá það strax þegar ég byrjaði að spila hér að þetta væri fullkomið samfélag til að ala upp barn, íþróttalífið er frábært, allir vilja gera allt fyrir alla.
Aron Þór dafnar vel, hann er ákveðinn og lætur í sér heyra þegar hann er svangur en annars er hann vær og góður,“ segir Gunnar.