Þínar leikreglur

Ef lífið væri leikur, hverjar væru þínar leikreglur? Hvernig myndir þú setja leikreglurnar ef þú fengir að ráða þeim alveg sjálf/ur? Myndir þú vilja hafa allt niðurnjörvað og skýrt eða myndir þú vilja geta hagað seglum eftir vindi?

Ég er ekki að spyrja út í loftið. Það hvernig þú vilt lifa lífinu er lykilatriði þegar kemur að hamingju þinni og heilsu. Og, að einhverju leyti, hamingju og heilsu þeirra sem standa þér næst. Ég spila minn besta leik þegar leikreglurnar eru fáar, einfaldar og mjög skýrar. Einn af þeim sem standa mér næst í fjölskyldunni er svipaður mér á meðan hinir vilja kjósa afslappaðri leikreglur. Hvað er ég að tala um með leikreglum? Grunninn að heilbrigði og hreysti – hreyfingu, svefn og mataræði.

Mér líður best þegar ég hreyfi mig mikið, æfi reglulega, sef mína 7,5 tíma og borða þrjár góðar máltíðar á dag – ekkert þar á milli – og sleppi öllu nammi og draslfæði. Þegar ég held mig innan þessara ramma líður mér best. Líkamlega og andlega. Miklu betur en þegar ég dett í það mynstur að „leyfa mér“ hitt og þetta. Ég skil hina hliðina.

Að sumir fúnkeri betur þegar rammarnir eru lausari og frelsið til að leyfa sér er til staðar. Sumum líður miklu betur þannig. En ég held að þeir eigi erfiðara með að skilja okkur sem þrífumst best á einföldu og skýru leikreglunum. Þeir halda að við séum að missa af lífshamingjunni með því að „neita okkur“ um það sem er utan rammanna okkar.

En það er ekki þannig. Þvert á móti. Og með því að vera í sífellu að reyna að hjálpa okkur að slaka á, fá okkur nú eina kökusneið, einn bjór, einn súkku­laðimola, er í raun verið að reyna að draga okkur út úr þeim leik sem okkur líður best í. Lifum heil!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. janúar 2021