Setur upp sitt fyrsta verk í þekktu leikhúsi í London

disalondon

Mosfellingurinn Hjördís Nína Egilsdóttir setti upp sitt fyrsta verk í leikhúsinu The Old Red LionTheatre í London í mars. Hjördís Nína flutti til Englands eftir útskrift úr menntaskóla, haustið 2014.
Hún hóf nám í Arts University Bournemouth-háskólanum, tók upp nafnið Dísa Andersen og útskrifaðist þaðan vorið 2017 sem Theatre maker. Dísa steig sín fyrstu skref hjá Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. „Ég byrjaði á leiklistarnámskeiðum og fann mig algjörlega þar. Fólkið í leikfélaginu hefur alltaf sýnt mér mikinn stuðning og þá ber helst að nefna Agnesi Wild og Gunnhildi,“ segir Dísa.
Dísu og samstarfkonu hennar Julie bauðst að setja upp verkið Is This Thing On? í leikhúsinu The Old Red Lion Theatre, en þær reka saman leikfélagið Frigg Theatre. „Það er afskaplega spennandi tækifæri að fá að setja upp verk í svona flottu leikhúsi. Þetta er mjög kostnaðarsamt, en fólki gafst kostur á að styrkja okkur í gegnum hópfjármögnunarsíðu.“

Gengið með verkið í maganum í tvö ár
„Verkið fjallar um heimilisofbeldi og áhrif þess á unga konu sem er að vaxa úr grasi. Hvernig þekkja má ofbeldi í samböndum, vináttu og svik. Við notuðumst mikið við ljóðlist og dans við sköpun verksins svo úr varð eins konar ljóðrænn hugarheimur fórnarlambs ofbeldis. Ég er búin að vera að vinna að þessu verki síðastliðin tvö ár.“
„Ég bæði skrifaði verkið, lék í sýningunni og sá um hljóðhönnun. Sýningarnar gengu mjög vel og við erum í samræðum um að sýna verkið á nokkum leiklistarhátíðum. Við Julie erum jákvæðar á framtíð Friggjar Theatre enda búnar að skapa okkur gott orðspor hérna í London.
Við ætlum að halda áfram að búa til okkar eigin verk með fókus á sögur kvenna. Julie er frá Noregi og er það okkar draumur að fara með verkin bæði til Íslands og Noregs.“