Mistök eru grunnurinn að námi

Valgarð Már Jakobsson

Valgarð Már Jakobsson

Menntun í heiminum stendur á tímamótum vegna örrar þróunar í rannsóknum á heilanum.
Heilinn er ótrúlegt líffæri sem kemur okkur stöðugt á óvart. Eitt af því sem við erum að átta okkur betur á er hvað gerist þegar við lærum eitthvað nýtt. Í hvert skipti sem börn gera mistök fer heilinn á fulla ferð við að leiðrétta mistökin og til verða nýjar taugabrautir í heilanum. Þetta er hreinlega hægt að sjá með því að skanna heilann meðan unnin eru verkefni.

Á meðan við gerum ekki mistök sem við leiðréttum, á nám sér ekki stað. Ef við hræðumst mistök „frýs“ heilinn þegar mistök eru gerð og ekkert gerist í heilanum, engar nýjar taugabrautir myndast og nemendur styrkjast í þeirri trú að þeir séu bara vitlausir.
Þetta er byggt á rannsóknum taugasálfræðingsins Carol Dweck hjá Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Hún hefur unnið með stærðfræðimenntunarsérfræðingnum Jo Boaler sem hefur sett upp námskeið um hvernig þetta birtist í stærðfræðikennslu. Nokkrir kennarar úr Varmárskóla, Lágafellsskóla og Framhaldsskóla Mosfellsbæjar eru búnir að vera að taka þetta námskeið saman með stuðningi frá Mosfellsbæ.
Þegar viðfangsefnin í skóla eru ekki krefjandi og nemendur leysa þau fyrirhafnarlaust þá eru þeir ekki að læra. Flest skólakerfi í dag eru enn byggð upp með þeim hætti að allt skal vera mælanlegt. Þetta þýðir því miður oft það sem flestir nemendur hræðast, skrifleg tímamæld próf. Hefðbundin próf refsa nemendum fyrir að gera mistök. Dregið er niður fyrir hverja villu í prófi og verðlaunað er fyrir að gera allt „rétt“. Þetta á líka við um vinnu verkefna og umræður í tímum.
Þegar börn komast á unglingsár hefur oft byggst upp hræðsla við að gera sig að fífli og að koma upp um vanmátt sinn. Þau þora ekki að svara spurningum af hræðslu við að verða að athlægi. Þetta á líka við um „kláru krakkana“, sem hræðast fátt meira en að gera mistök sem ýta þeim niður af „klára“ stallinum.

Það er stórhættulegt að segja við nemendur að þeir séu klárir þegar þeir hafa leyst verkefni. Verðlaunum þau frekar fyrir hugrekki og þor til að reyna við verkefni. Langflest okkar getum sagt frá vanmætti og jafnvel niðurlægingu sem við höfum orðið fyrir í skóla. Þetta er sérstaklega algengt í stærðfræði og margir nemendur fara að sjálfgreina sig með stærðfræðiblindu og foreldrar ýta jafnvel undir þetta með því að segja að þau hafi nú sjálf verið léleg í stærðfræði. Hættum því.

Hættum að refsa fyrir mistök. Hættum að afsaka börnin okkar til að vernda þau. Hvetjum þau til að þora og reyna, hvetjum þau til að reyna aftur og aftur, eins og þau gera í tölvuleikjunum sínum. Ef þau reyna og mistekst þá eigum við að hvetja þau og hrósa fyrir kjarkinn.
Skólar bæjarins eru uppfullir af frábærum sérfræðingum, kennurum, sem geta metið getu nemenda með því að kynnast þeim og vinna með þeim. Treystum þeim til þess að vinna sitt starf og verum ekki alltaf að gera kröfur að sanna sig með prófum sem aldrei geta mælt hæfni og leikni sem framtíðin gerir kröfur um.

Valgarð Már Jakobsson
Höfundur er stærðfræðikennari í FMOS og skipar 3. sæti á lista VG í Mosfellsbæ.