Samvinna, Samgöngu­sáttmáli og Sundabrú

Willum Þór Þórsson

Við þekkjum öll þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í uppbyggingu á samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins undanfarna áratugi. Á sama tíma hefur umferðarþunginn aukist og ferðir til og frá vinnu geta tekið óratíma sérstaklega á háanna­­tíma.
Fyrir þetta kjörtímabil, sem nú er að ljúka, vorum við komin í skuld við vegakerfið vítt og breytt um landið. Hluti af vandamáli höfuðborgarsvæðisins voru deilur milli sveitarfélaganna varðandi framtíðar fyrirkomulag samgangna á svæðinu.
Sveitarfélögin höfðu öll mismunandi sýn og áherslur í málaflokknum sem gerði það að verkum að pattstaða myndaðist og ekkert gerðist. Ekki fyrr en formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Sigurður Ingi er nefnilega samvinnumaður af gamla skólanum og hann náði að byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna þessa sex sveitarfélaga.
Útkoman úr þeirra samvinnu og samtali er eitt stærsta framfaramál kjörtímabilsins. Samgöngusáttmáli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er að finna umfangsmikla uppbyggingu á stofnbrautum svæðisins, innviðum, almenningssamgöngum, göngu- og hjólastígum sem og umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu. Í náinni framtíð munum við sjá þau verkefni sem heyra undir sáttmálann fara í framkvæmd hvert á fætur öðru.
Einnig þekkjum við umræðuna um Sundabraut eða Sundabrú. Sú umræða hefur dúkkað upp fyrir kosningar síðan ég fékk kosningarétt. Það var því afar ánægjulegt að sjá málið komast formlega af stað í sumar eftir gríðalega vandaða undirbúningsvinnu. Ferlið er hins vegar langt enda gríðalega stór framkvæmd. Stefnt er að því að hægt verði að fara yfir brúna árið 2031.
Sundabrú mun létta mikið á umferð í Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku og auka þannig lífsgæði þeirra sem búa á svæðinu.
Framsókn er samvinnuflokkur, svona vinnum við!

Willum Þór Þórsson
1. sæti Framsókn Suðvestur