Bætt lýðheilsa = sparnaður í heilbrigðiskerfinu

Bryndís Haraldsdóttir

Lýðheilsuaðgerðir miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga og þjóðarinnar í heild með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu.
Hið opinbera á að skapa fólki aðstæður í samfélaginu sem auðvelda því að stunda heilbrigða lífshætti og efla vitund fólks og vitneskju um mikilvægi þess. Fáir deila um mikilvægi þess að íslenska ríkið greiði niður skuldir þar sem það sparar vaxtagreiðslur til framtíðar.
Svipað er hægt að segja um fjármuni sem varið er til aukinnar heilsueflingar til að bæta lýðheilsu. Slíkt sparar umtalsverð útgjöld til heilbrigðismála til lengri tíma.

Heilsubærinn Mosfellsbær
Mosfellsbær hefur staðið sig einstaklega vel í að viðhalda og varðveita útivistarsvæði bæði innan byggðarinnar og í útjaðri byggðar. Í þessu felast raunveruleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir sem við fáum líka að njóta strax. Tveir golfvellir, tvær sundlaugar, mikið magn göngu- og hjólastíga og stikaðar gönguleiðir á öll fellin okkar meðfram ám og vötnum.
Óhætt er að segja að á tímum Covid hafi útivistarsvæðin sannað gildi sitt svo um munar. Yndislegt hefur verið að fylgjast með fjölskyldum í fjöruferð, fólki á öllum aldri á golfvellinum og aukinn áhugi á fellunum okkar og fossunum hefur heldur betur sýnt sig á þessum furðulegu tímum.
Rannsóknir sýna að gott aðgengi að útivist og fallegu umhverfi eru álitin ómetanleg lífsgæði og það eykur hamingju íbúa. Það stuðlar að aukinni lýðheilsu og sparar fjármuni til framtíðar í heilbrigðis­þjónustu.

Framtíðin er björt
Með bætta lýðheilsu og bjartsýni að leiðarljósi býð ég fram krafta mína til setu á Alþingi. Ég hef í störfum mínum talað fyrir enn betra samfélagi fyrir fjölskyldur í landinu.
Ég hef talað fyrir jafnrétti og umhverfisvernd, ég hef talað fyrir nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Ég hef talað fyrir bættum samgögnum og auknu valfrelsi í samgöngum. Ég hef talað fyrir nýrri nálgun í heilbrigðis­málum. Árangur núverandi ríkisstjórnar hefur ekki látið á sér standa.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ríkissjóður haft bolmagn til að taka á móti heimsfaraldri með öflugum stuðningsaðgerðum sem tryggðu rekstrargrundvöll fyrirtækja og um leið afkomu heimilanna í landinu. Allir mælikvarðar benda til þess að aðgerðir okkar síðustu kjörtímabil og þær ákvarðanir sem teknar voru í ríkisfjármálum séu grundvöllur þeirrar viðspyrnu sem Ísland býr yfir nú þegar við búum okkur undir að vaxa út úr faraldrinum.
Setjum X við D, strax í dag, og tryggjum að Ísland verði áfram land tækifæranna.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins