Lög unga fólksins

Leifur Ingi Eysteinsson

Í aðdraganda kosninga þá rignir yfir okkur alls kyns auglýsingum um það sem flokkarnir ætla að gera eftir kosningar.
Trúverðugleiki flokka er hins vegar misjafn og er því mikilvægt að skoða verkin frá líðandi kjörtímabili og meta það út frá þeim.
Fyrir ungt fólk, sem er að taka þátt í sínum fyrstu kosningum, langar okkur að draga aðeins fram tvö mál sem Framsókn kom í gegn á liðnu kjörtímabili sem snerta hag okkar unga fólksins.

Menntasjóðurinn
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra umbylti lánaumhverfi námsmanna á kjörtímabilinu með stofnun Menntasjóðsins sem tekur við af LÍN. Nýr menntasjóður er með hærri framfærslu, möguleika á 30% niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi. Þetta er mesta framfaramál ungra námsmanna í áratugi.

Kjartan Helgi Ólafsson

Hlutdeildarlánin
Fyrir ungt fólk hefur reynst erfitt að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn en hlutdeildarlánin sem Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra kom með á kjörtímabilinu aðstoða einmitt ungt fólk að komast inn á þann markað. Það brúar bilið við fyrstu kaup og þarf þá einungis að leggja fram 5% af kaupverði eignarinnar en HMS lánar 20% sem hlutdeildarlán og það ber enga vexti eða afborganir. Stórt framfaramál fyrir ungt fólk.

Afrekalisti Framsóknar á kjörtímabilinu er langur og mörg framfaramál fyrir ungt fólk farið í gegn til viðbótar við þessi tvö hér að ofan. Það gefur okkur trúverðugleika þegar við tölum inn í framtíðina. Við tölum ekki fyrir neinum byltingum heldur framförum og raunhæfum lausnum.
Ungt fólk er framarlega og áberandi á listum Framsóknar t.d. hér í Suðvesturkjördæmi þar sem þrír af fimm efstu eru undir 35 ára. Á næsta kjörtímabili er mikilvægt að halda áfram veginn sem lagður var á síðasta kjörtímabili. Verkefnin framundan eru krefjandi og það mun skipta máli hverjir halda um stjórnartaumana. Framtíðin ræðst á miðjunni. XB fyrir unga fólkið.

Leifur Ingi Eysteinsson og Kjartan Helgi Ólafsson,
höfundar eru stjórnarmenn
í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar