Mér finnst eins og ég muni…

Jana Katrín Knútsdóttir

Mér finnst eins og ég muni eftir því þegar Mosfellssveit varð að Mosfellsbæ. Sem er í raun ómögulegt því ég var ekki nema árs gömul og hef tæplega orðið vör við eða skilið breytinguna.
Líklega man ég þó eftir umræðunni þegar ég eltist því ég minnist þess að hafa sýnt nokkurn mótþróa og heitið því að kalla bæinn Mosfellssveit um ókomna tíð. Lengst af kallaði ég hann þó Músabæ og gerði ég mitt allra besta til að kalla hátt og snjallt „velkomin í Músabæ“ um leið og við fjölskyldan keyrðum inn fyrir bæjarmörkin hvort heldur sem var eftir ferð til Reykjavíkur eða Norðurlandið.
Að baki „Músabæjar“ stóð sú allra hlýjasta merking sem ég gat hugsað mér. Eitthvað sem var fallegt og gott enda einmitt sú tilfinning sem ég bar til heimabæjarins og geri svo sannarlega enn. Hér ólst ég upp og hér er ég svo lánsöm að ala börnin mín upp. Mosfellsbær hefur nefnilega svo marga góða kosti og sinn einstaka sjarma sem sveit í borg með náttúruna, fjöllin og fuglalífið allt um kring. Það skiptir mig miklu máli að hér sé og verði áfram gott að búa og sé ég ótalmörg tækifæri til þess að svo megi vera. Huga þarf að þeim þáttum sem snerta velferð fjölskyldna og íbúa bæjarins beint, t.a.m. aðgengi að þjónustu og afþreyingu, aðgengi að öflugu og vönduðu íþrótta- og tómstundastarfi og viðeigandi stuðningi fyrir þá nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda á öllum skólastigum.
Jafnframt er mikilvægt að horfast í augu við stöðu drengja í menntakerfinu sem farið hefur versnandi síðustu ár og sporna við þeirri þróun með stuðningi við bæði skóla og kennara. Við þurfum að huga að þjónustu í heimahúsum fyrir aldraða og fatlaða svo að fólki sé gert kleift að búa á eigin heimili og njóta þannig mannréttinda og aukinna lífsgæða.
Margt hefur verið gert í gegnum tíðina og mikilvægt að styðja enn frekar við innviði og grunnstoðir í samfélagi sem er í örum vexi. Þannig verður Mosfellsbær, bærinn okkar, að „stórasta“ bæ í heimi.

Jana Katrín Knútsdóttir,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.