Rokkum á ósamstæðum sokkum

sigrun

Sigrún Guðlaugardóttir er vel kunnug fjölbreytileikanum. Hún er hvatamanneskjan að viðburðinum Rokkum á sokkum sem fer fram föstudaginn 10. júní nk.
Þann dag hvetur hún alla til að ganga í ósamstæðum sokkum til að vekja athygli á fjölbreytileikanum í hvaða formi sem hann er. Allir geta tekið þátt á þeim forsendum sem standa þeim næst hvort sem það eru málefni fatlaðra, kynhneigð, trúarbrögð, sjúkdómar eða eitthvað annað.

Sigrún er fædd 21. apríl 1986 og hefur alla tíð búið í Mosfellsbæ. Foreldrar hennar eru þau Guðlaug Gísladóttir og Hjörtur Sveinn Grétarsson. Sigrún á fimm systkini, Gísla Pál, Eygló Svövu, Ólafíu Mjöll, Grétar Snæ og Kristrúnu Ósk.
„Ég og bróðir minn, Grétar Snær, ólumst upp saman hjá móður okkar. Grétar er með Asperger-heilkenni og að fá að alast upp með honum held ég að sé stóri þátturinn sem hefur mótað mig í þá manneskju sem ég er í dag.
Fjölskylda mín er náin og við búum flest í Mosfellsbæ. Það er líka ómetanlegt að hafa afa og ömmu hér innan seilingar.“

Ögrandi hormónasprengja
„Ég gekk í Varmárskóla og síðan Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Ég var alltaf sterkur námsmaður en þvældist oft fyrir sjálfri mér. Alla mína skólagöngu hlustaði mamma á sömu rulluna í kennurunum, hún stendur sig vel í námi en talar ósköp mikið.
Ég var virk í félagsstarfi, söng meðal annars fyrir hönd Bólsins í Söngkeppni félagsmiðstöðvanna og svo lék ég knattspyrnu með Aftureldingu frá 6-15 ára aldurs.
Ég varð holdgervingur unglingaveikinnar, skapstór ögrandi hormónasprengja. Ég skil ekki enn í dag hvernig mamma hélt geðheilsunni. Ég róaðist nú fyrir rest og gerði tilraun til stúdentsnáms en lauk ekki náminu.“

Hjarta mitt er í Mosfellsbænum
„Þegar ég hélt út á vinnumarkaðinn þá fór ég að vinna á Hlein við Reykjalund. Það var þar sem ég áttaði mig á að ég vildi vinna með fólk. Ég lærði hvernig litlir hlutir geta verið gríðarlega stórir sigrar.
Árið 2007 flutti ég á Höfn í Hornafirði, ég var búin að fá starf í grunnskólanum sem stuðningsfulltrúi. Mig langaði líka til þess að vera nær Ólafíu Mjöll systur minni en við höfum alla tíð verið nánar. Ég bjó á Höfn í hálft ár og sá þar enn betur styrkleika mína í starfi með einstaklingum með þroska- og hegðunarfrávik.
Höfn er yndislegur staður en hjarta mitt er í Mosfellsbænum og það kallaði mig aftur heim.“

Verð seint þekkt fyrir kvenlegheit
„Frænka mín hvatti mig til að sækja um starf í álverinu á Grundartanga. Ég hóf störf þar í byrjun árs 2008. Karlmenn eru í miklum meirihluta þar og það hentaði mér vel þar sem ég verð seint þekkt fyrir kvenlegheit. Mér fannst æðislegt að vera skítug upp fyrir haus og vinna á stórum þungum tækjum.
Árin 2009 og 2010 voru mér og minni fjölskyldu erfið. Ólafía Mjöll systir fór í aðgerð þar sem mistök áttu sér stað. Á tímabili var mjög tvísýnt um hvort hún myndi lifa af en systir mín er mikil baráttukona og hafði það af. Hún var á Grensás í endurhæfingu í rúmt ár. Ég er óendanlega stolt af systur minni, hún er hetjan mín.“

Gerðist stuðningsforeldri
„Ég hóf störf við Krikaskóla árið 2011 og þar starfa ég sem stuðningsfulltrúi. Í skólanum kynntist ég Ísabellu Eir en hún er með Smith-Magenis-heilkenni (SMS) en á Íslandi eru einungis þrír greindir með heilkennið svo vitað sé. SMS er litningagalli sem veldur miklum svefntruflunum, einstaklega erfiðri hegðun, röskun á mál- og vitsmunaþroska og sjálfsskaði er líka mjög algengur.
Málin þróuðust þannig að ég gerðist stuðningsforeldri fyrir hana árið 2013 þegar hún var rúmlega þriggja ára. Ísabella kemur reglulega til mín í vistun til að hvíla fjölskyldu hennar enda mikil þörf á þar sem heilkennið er þungt í burðum.
Fjölskylda mín hefur tekið Ísabellu opnum örmum og hún fær frá þeim afmælis-og jólagjafir og hún kallar mömmu mína ömmu. Að sama skapi hefur fjölskylda hennar verið mér ótrúlega góð.
Í gegnum dvöl sína hjá mér kynntist Ísabella hundunum mínum en ég á þrjá Labradora og hafa þau samskipti vakið þó nokkra athygli. Samskipti hennar við hundana hafa verið ótrúlega jákvæð og ég stend föst á því að þeir hjálpi gríðarlega við umönnunina á henni.“

Hundarnir eru minn lífsstíll
„Ég hef verið forfallinn hundavitleysingur síðan 2009. Ég ræktaði Labrador-hundana mína með mömmu en hún sér alfarið um ræktunina í dag.
Elsti hundurinn minn, Loki, var heiðraður sem afrekshundur ársins 2015 hjá Hundaræktarfélagi Íslands sem er mikill heiður. Hundarnir eru minn lífsstíll og í gegnum þá hef ég kynnst aragrúa af frábæru fólki með sama áhugamál, þar á meðal kærastanum mínum, Lárusi Eggertssyni.“

Bjó til viðburð á Facebook
„Rokkum á sokkum er viðburður sem ég bjó til á Facebook í fyrra. Hann má að hluta til rekja til hundanna minna og einskærs áhuga þeirra á sokkaáti. Það er ekki hlaupið að því að finna samstæða sokka hér á bæ og ég er því gjarnan í ósamstæðum sokkum og hef gert það að mínum stíl.
Frænka mín sem var í heimsókn hjá mér rak augun í stílinn minn og fór að tala um viðburð sem hafði verið í Svíþjóð. Þar hafði ung stúlka biðlað til fólks að ganga í ósamstæðum sokkum í einn dag til að vekja athygli á því að við erum ekki öll eins. Mér fannst þetta prýðisgóð hugmynd og var viss um að ég gæti platað einhverja af vinum mínum til að taka þátt í svona uppá­komu.“

Litla hugmyndin varð risavaxin
Ég spyr Sigrúnu hvort hún hafi fengið góð viðbrögð. „Já, viðbrögðin voru stjarnfræðilega meiri en ég bjóst nokkurn tímann við. Litla hugmyndin við eldhúsborðið var allt í einu orðin risavaxin og vakti strax athygli fjölmiðla og það var bara gaman að því.
Nú á að endurtaka leikinn þann 10. júní og gaman væri ef fólk tæki mynd og setti við hana #rokkumasokkum og það málefni sem það stendur fyrir. Því fleiri málefni sem koma fram því betur undirstrikum við fjölbreytileikann í samfélaginu.
Við höfum einmitt rætt við börnin í Krikaskóla um að við séum öll ólík en jöfn og það er í raun það sem allir ættu að hafa í huga,“ segir Sigrún brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 2. júní 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs