Færðu hælisleitendum reiðhjól

arnarholt

Rauði krossinn í Mosfellsbæ hefur fært hælisleitendum í Arnarholti á Kjalarnesi fimm reiðhjól ásamt hjálmum og lásum.
Deildin stóð fyrir hjólasöfnun og færir fólki bestu þakkir fyrir hjálpina og sérstaklega Barnaheillum sem útveguðu nokkur hjól. Byko gaf svo myndarlegan afslátt á hjálmum og fylgihlutum.
„Það er okkar von að með komu hjólanna verði auðveldara fyrir þá að fara ferða sinna því það er rúmur hálftíma gangur að næsta strætóskýli eða yfir höfuð í einhverja þjónustu og enn lengra til dæmis í sund,“ segir Hulda M. Rútsdóttir verkefnastjóri Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Stefnt er að því að fara með fleiri hjól til þeirra fljótlega ef vel gengur.
Í Arnarholti eru á fjórða tug manna á aldrinum 20-50 ára sem bíða þess að hælisumsóknir þeirra verði teknar fyrir. Þeir hafa lítið við að vera og fara margir hverjir daglega til Reykjavíkur.

Bæting á samgöngum hafi góð áhrif
„Rauði krossinn í Mosfellsbæ þjónar Kjalarnesi og Kjós og eftir að við komumst að tilveru þeirra þarna og skoðuðum aðstæður, fórum við að velta fyrir okkur hvað við gætum gert til að aðstoða þá. Augljósast var að bæting á samgöngum hefði góð áhrif,“ segir Hulda.
Hælisleitendur mega ekki afla tekna á meðan umsókn þeirra er tekin fyrir en mega sinna sjálfboðnu starfi. Hulda bendir á að það vanti vinnufúsar hendur í fataflokkun RKÍ í Skútuvogi.
„Það væri vel þegið ef einhverjir hafa tök á því að taka þrjá til fjóra menn með í bæinn frá Arnarholti á morgnana endrum og eins. Þar gefst upplagt tækifæri til að spjalla og kynnast þeim betur í bílferðinni,“ segir Hulda (hulda@redcross.is).