Kristófer Fannar gengur til liðs við Aftureldingu

Ásgeir Sveinsson formaður meistara­flokksráðs og Kristófer Fannar handsala samninginn.

Ásgeir Sveinsson formaður meistara­flokksráðs og Kristófer Fannar handsala samninginn.

Markvörðurinn öflugi, Kristófer Fannar Guðmundsson, hefur gengið til liðs við Aftureldingu. Kristófer Fannar er 25 ára Mosfellingur, uppalinn í Aftureldingu. Síðustu fjögur tímabil hefur hann leikið með ÍR og Fram. Kristófer er einn allra besti markvörður á Íslandi í dag og er kominn með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann á því eftir að styrkja hóp meistaraflokks Aftureldingar í handbolta til muna fyrir næstu leiktíð.
Pálmar Pétursson sem hefur verið varamarkvörður Davíðs Svanssonar hjá Aftur­eldingu síðustu tvö ár hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.
Eftir frábæran árangur Aftureldingar í Olísdeildinni tvö ár í röð er ljóst að Mosfellingar ætla að halda áfram að styrkja og efla liðið sitt og verður stefnt að því að keppa um alla titla sem eru í boði á næsta tímabili.
Þá er stefnt að því að styrkja liðið um 1-2 leikmenn í viðbót auk þess sem Elvar Ásgeirsson er tilbúinn í slaginn eftir krossbandsmeiðsli sem héldu honum frá keppni á nýliðnu tímabili.

 

Gunnar Malmquist, Birkir og Gestur.

Gunnar Malmquist, Birkir og Gestur.

Ungir lykilmenn framlengja
Í síðustu viku framlengdu einnig ungir lykilmenn Aftureldingar samninga sína við félagið til þriggja ára.
Þetta eru þeir Gunnar Malmquist Þórsson, Birkir Benediktsson og Gestur Ólafur Ingvarsson.
Þrátt fyrir ungan aldur spila þessir leikmenn stórt hlutverk í toppliði Aftureldingar og er gríðarleg ánægja hjá stjórn og Einari Andra þjálfara með þessa nýju samninga.
Þessir leikmenn tóku miklum framförum og voru lykilmenn í vörn og sókn hjá Aftureldingu í vetur. Þeir áttu frábæra leiki í hinni mögnuðu úrslitakeppninni sem er nýlokið. Það verður því gaman að fylgjast með þessum drengjum halda áfram að vaxa og dafna á næsta tímabili en þar ætla menn sér stóra hluti.