Rödd atvinnulífsins inn á Alþingi

Sigþrúður Ármann

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur velferðar, framþróunar og hagsældar fyrir alla. Atvinnulífið stendur undir grunnstoðum samfélagsins; menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu, samgöngum, innviðum og menningu. Það er því hagur okkar allra að atvinnulífið blómstri.

Hvetjandi umhverfi
Við fæðumst með ólíka forgjöf. Bakland fólks er misjafnt en við þurfum öll að fá tækifæri til að nýta hæfileika okkar. Til þess þurfum við sem samfélag að standa saman og hafa það að sameiginlegu markmiði að byggja upp samfélag sem stuðlar að velferð, lífsgæðum og efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar.
Við þurfum að skapa hvetjandi umhverfi þannig að hver og einn finni hvata til þess að láta til sín taka. Þennan hvata má ekki skerða þegar fólk kemst á efri ár. Tækifærin eru víða og við þurfum að virkja kraftinn. Minnka umsvif í rekstri hins opinbera og útvista verkefnum. Það er atvinnulífsins að leiða vöxt á vinnumarkaði og fjölga störfum en ekki hins opinbera.

Aukin verðmætasköpun
Við þurfum að auka verðmætasköpun með öflugri innlendri framleiðslu og treysta stoðir útflutningsfyrirtækja því að þar liggur grunnurinn að gjaldeyrisöflun landsins. Þannig tryggjum við stöðug lífskjör í landinu og löðum að erlendar fjárfestingar.
Við þurfum að efla atvinnulífið og auka ráðstöfunartekjur fólks með lágum sköttum og gjöldum. Samkeppnisforskot okkar er græn orka og við þurfum að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi.

Menntun, heilbrigði og nýsköpun
Aðgangur að framúrskarandi og fjölbreyttri menntun og góðu heilbrigðiskerfi er lykilatriði fyrir samfélagið allt. Við eigum að efla nýsköpun á öllum sviðum og bjóða upp á valfrelsi. Framþróun byggist á nýsköpun. Við þurfum að byrja strax í grunnskólum að þjálfa börn í að hugsa á skapandi hátt.

Með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu
Ég vil nýta víðtæka reynslu mína úr atvinnulífinu á Alþingi. Ég er fædd og alin upp í heimi viðskipta. Ég er einn eigenda og stjórnarformaður framleiðslufyrirtækis í Hafnarfirði. Ég er fulltrúi í fjölskylduráði í Garðabæ sem jafnframt er barnaverndarnefnd bæjarins.
Félagsleg mál, málefni eldri borgara og fatlaðra heyra einnig undir nefndina. Ég brenn fyrir samfélagsmálum og finnst fátt meira gefandi en að eiga góð samskipti við fólk. Ég hef verið framkvæmdastjóri öflugs umræðuvettvangs í 15 ár, þar sem viðfangsefni eru rædd þvert á atvinnugreinar á málefnalegan, uppbyggilegan og árangursríkan hátt.

Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð – þurfum skýra framtíðarsýn
Alþingi á að vera vettvangur fyrir uppbyggilega og málefnalega umræðu þar sem mótuð er skýr framtíðarsýn. Sem alþingismaður mun ég vinna markvisst að því að efla málefnalega umræðu á milli atvinnulífs og stjórnvalda.

Virk í starfi Sjálfstæðisflokksins
Í rúma tvo áratugi hef ég tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Ég aðhyllist stefnu flokksins um frelsi einstaklingsins, atvinnufrelsi og jafnrétti. Ég býð mig fram í prófkjöri til að geta unnið að krafti á Alþingi að þessum hugsjónum. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu minni www.sigthrudur.is

Ég óska eftir þínum stuðningi í 3. sætið.

Sigþrúður Ármann
Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.