Framtíðin er unga fólksins

Bryndís Haraldsdóttir

Öflugt atvinnulíf til framtíðar, framboð af húsnæði og góðar samgöngur eru forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins á Íslandi. Samkeppni um unga fólkið er einn af hornsteinum framtíðarinnar. Getur unga fólkið byggt upp sitt líf í Mosfellsbæ, á höfuðborgarsvæðinu, á Íslandi eða velur það að fara eitthvað annað?

Við sem hér búum þekkjum kosti þess hversu mikil lífsgæði eru fólgin í því að hafa greiðan aðgang að náttúru og útivist. Mikilvægi okkar góðu skóla og leikskóla. Hvað samfélagið, félagsstarfið og samhugurinn gefur okkur öllum mikið. Allt þetta þurfum við að varðveita því það eru þessir þættir sem gera Mosfellsbæ að frábærum bæ.

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf
Það er hlutverk stjórnvalda að búa þeim framtíð, skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta okkar einstaklinganna til fulls. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og hvetja til fjárfestinga og eðlilegrar samkeppni. Stjórnmálamenn þurfa að skapa skýrt og stöðugt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar. Við þurfum að vera meðvituð um að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulíf og það á ekki síður við hér í Mosfellsbæ.

Bryndís Haraldsdóttir í 2. sæti
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja á þingi í 5 ár sem 2. þingmaður Suðvesturkjördæmis. Ég var bæjarfulltrúi hér í Mosfellsbæ í 8 ár og varabæjarfulltrúi 8 ár þar á undan. Ég var lengi formaður skipulagsnefndar og formaður bæjarráðs, ég var forseti bæjarstjórnar, stjórnarformaður Strætó og sat í svæðisskipulagsnefnd.

Ég hef látið mig ýmis mál varða, bæði í sveitarstjórn og á þingi, og eitt þeirra mála eru samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að horft sé til framtíðar og horft sé á raunhæfar lausnir fyrir svæðið allt. Ég er stolt af því að hafa komið að og stutt höfuborgarsáttmálann, samning á milli ríkis og sveitarfélaga um alvöru uppbyggingu samgöngumannvirkja þar sem horft er til fjölbreyttra samgöngukosta, bæði einkabílsins og almenningssamgangna.
Ég hef líka kallað eftir Sundabraut strax og lagt fram þingsályktun um að hún verði boðin út í einkaframkvæmd.

Ég sækist nú eftir því að fá að vinna áfram fyrir Mosfellsbæ og unga fólkið okkar að því að byggja upp öruggt, frjálst og opið og gott samfélag þar sem allir geta nýtt tækifærin sín. Ég býð fram krafta mína, reynslu og þekkingu.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri flokksins í SV-kjördæmi 10.-12. júní næstkomandi.
Frekari upplýsingar www.bryndisharalds.is