Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2019

Helgafellsskóli er stærsta framkvæmd bæjarins á síðustu árum.

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2019 var staðfestur á fundi bæjarstjórnar, miðvikudaginn 13. maí, og sýnir að Mosfellsbær stendur sem fyrr styrkum fótum.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 416 milljónir sem er um 26 milljóna betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það skýrist af auknum tekjum vegna hærri launatekna íbúa, meiri umsvifum í sveitarfélaginu og lægri fjármagnskostnaði en ráð var gert fyrir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Ábyrgur rekstur málaflokka
Rekstur málaflokka gekk vel og er í ágætu samræmi við fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 9.626 milljónum en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að verja 9.345 milljónum til reksturs málaflokka.
Fræðslumál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en til hans var varið 5.284 milljónum eða 52,77% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.953 milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundamál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.070 milljónum.

Árangur styður við endurreisnina fram undan
„Rekstur og starfsemi sveitarfélagsins hefur gengið vel á umliðnum árum sem hefur gert okkur kleift að byggja undir framtíðina,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. Fólk hefur streymt til Mosfellsbæjar og íbúum fjölgað um 2.600 manns frá ársbyrjun 2017.
„Rekstrarárangur síðustu ára þar sem sveitarfélagið hefur verið rekið með góðum afgangi er nú hluti af getu Mosfellsbæjar til að taka á móti þeim mótvindi sem ríkir vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum. Árangurinn styður því við þá endurreisn sem nú stendur fyrir dyrum.“


Helstu tölur ársins 2019

Rekstrarafgangur 416 m.kr.
Tekjur 12.422 m.kr.
Launakostnaður 5.577 m.kr.
Annar rekstrarkostnaður 5.418 m.kr.
Framlegð 1.427 m.kr.
Veltufé frá rekstri nam 1.239 m.kr. sem er um 10% af tekjum.
Eigið fé í árslok nam 7.197 milljónum og eiginfjárhlutfall 33,9%.
Skuldaviðmið nemur 84,7%.
Íbúafjöldi í lok árs var 12.069.
Íbúum fjölgaði um 640 á árinu 2019.
Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins.
Starfsmenn í árslok voru 784 í 636 stöðugildum.
Um 83% skatttekna er varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.