Gott að gefa sér góðan tíma

Ágústa Pálsdóttir eigandi gjafavöruverslunarinnar Evítu er hæstánægð með móttökur bæjarbúa.

Það er ævintýri líkast að koma inn í gjafavöruverslunina Evítu í Háholti en þar má sjá fallegar og glitrandi vörur hvert sem auga er litið. Það þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða úrvalið en allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.
Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson keyptu verslunina í ágúst 2016 en hún var þá á Selfossi. Ári seinna fluttu þau hana í Mosfellsbæinn og þau sjá ekki eftir því enda hæstánægð með móttökur bæjarbúa.

Ágústa er fædd 12. mars 1966. Foreldrar hennar eru þau Maj-Britt Kolbrún Hafsteinsdóttir, verslunar- og skrifstofumaður, og Páll Halldórsson flugstjóri.
Ágústa á tvö systkini, Hafdísi f. 1964 og Pál Inga f. 1970 d. 2018.

Dró inn alla villiketti hverfisins
„Ég er alin upp í Reykjavík, Garðabæ og á Seltjarnarnesi og lék mér úti alla daga. Ég var víst ansi dugleg við að draga inn á heimili okkar alla villiketti hverfisins sem var að sjálfsögðu ekki vel séð,” segir Ágústa og hlær.
„Ég var mikill bókaormur og las allar þær bækur sem ég komst yfir. Ég var líka dugleg að breyta til og skreyta í herberginu mínu, foreldrar mínir vissu í raun aldrei hverju þau áttu von á þegar þau gengu inn.
Nýstraujuð rúmföt, ný náttföt og ný bók á aðfangadagskvöld er falleg og góð æskuminning.”

Fluttu til Belgíu
„Þegar ég var fimm ára þá fluttum við fjölskyldan til Belgíu vegna starfs föður míns og þar bjuggum við í eitt ár. Við ströndina í Ostend á ég margar góðar minningar. Ég man t.d. hvað ég hafði gaman af því að safna maríuhænum í körfu, mér fannst þær svo litríkar og fallegar,” segir Ágústa og brosir.
Eftir að við fluttum heim aftur þá voru gerðar tvær tilraunir til að senda mig í sveit. Ég lét mig hafa það og fór en eins mikill dýravinur og ég er þá grét ég mig heim aftur eftir tvær nætur og þar með var þeim kafla í lífi mínu lokið.”

Gaman að fljúga með pabba
„Ég hef haft mjög gaman af því að fljúga með pabba mínum í gegnum tíðina en hann hefur verið að fljúga bæði á þyrlum og flugvélum. Við höfum farið í mörg útsýnisflugin saman bæði frá flugvellinum á Tungubökkum og síðar frá Haukadalsmelum.
Það hefur verið mikið upplifelsi að fá að skoða landið sitt frá ólíkum sjónarhornum og hlusta á fróðleik pabba í leiðinni, þetta er algjörlega ómetanlegt.”

Alveg hreint frábær ár
Ágústa gekk í Hlíðaskóla, Flataskóla og Valhúsaskóla en uppáhaldsfögin hennar voru lestur og skrift. Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Ármúla þaðan sem hún fór út á vinnumarkaðinn.
„Ég hóf störf hjá Steinari Waage og fór þaðan yfir í bókaverslunina Ísafold í Austurstræti og svo var ég í 10 ár hjá gleraugnaversluninni Optical Studio í Smáralind.
Ég sá um veitingasöluna í gamla Golfskálanum hér í Mosfellsbæ í þrjú ár. Þetta voru alveg hreint frábær ár og maður kynntist mörgu góðu fólki.”

Elskum að vera úti í náttúrunni
Ágústa eignaðist tvíburana Sóldísi Björgu og Hafdísi Ásu með Óskari Þór Péturssyni árið 1993 en þau slitu samvistum.
Eiginmaður Ágústu er Haukur Hafsteinsson starfsmaður hjá Bergá Sandblæstri á Esjumelum. „Við hjónin höfum mjög gaman af því að ferðast og erum búin að gera mikið af því og erum hvergi hætt. Við erum útivistarfólk og elskum að vera út í náttúrunni og fara í langa og góða göngutúra.
Við höfum einnig mikla ánægju af að vera með fjölskyldu og vinum í kósýheitum heima, elda góðan mat og spjalla. Við eigum þrjá norska skógarketti sem við nostrum mikið við og þeir gefa okkur ansi mikið. Kettir hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér eins og æskuminningin um útigangskettina bera glöggt vitni um,” segir Ágústa og hlær.

Fundum hentugt húsnæði
„Við hjónin keyptum gjafavöruverslunina Evítu í ágúst 2016 en hún var þá staðsett á Selfossi, þar rákum við hana í eitt ár. Við bjuggum í Mosfellsbæ þegar við festum kaupin svo það var ekkert annað í stöðunni en að keyra bara á milli. Við ákváðum svo á einum tímapunkti að nú væri þetta komið gott og færðum verslunina um set, okkur fannst tilvalið að færa hana hingað í Mosfellsbæinn.
Við vorum svo heppin að finna hentugt og bjart húsnæði að Háholti 14 og útsýnið úr gluggunum hérna er alveg dásamlegt. Það er náttúrlega algjör draumur að vera svona miðsvæðis í bænum.”

Erum með fjölbreytt vöruúrval
„Við flytjum inn allar okkar vörur sjálf og erum alltaf á höttunum eftir nýjum og fall­egum vörum. Við Haukur njótum þess að fara saman erlendis á sýningar, hitta birgja og njóta lífsins í leiðinni.
Við erum með mjög fjölbreytt vöruúrval svo það getur verið gott að gefa sér góðan tíma til að skoða,” segir Ágústa um leið og hún gengur um búðina og sýnir mér úrvalið. „Við seljum allskyns dúllerí og fínerí fyrir falleg heimili og sumarbústaði og erum eingöngu með vörur sem fást hvergi annars staðar. Við erum einnig með mikið úrval skilta í öllum stærðum, gerðum og litum, með fallegum tilvitnunum á.
Það er gaman að segja frá því að við fengum nýjan birgja núna í byrjun árs og er fyrsta sending frá honum komin í hús, falleg hnífapör og kertaarnar. Þessar vörur urðu svo vinsælar að ég varð að panta aðra sendingu um hæl sem er á leiðinni til landsins. Svona getur þetta verið, sumar vörur hitta algjörlega í mark,” segir Ágústa og brosir.

Þakklát fyrir móttökurnar
„Viðskiptavinir okkar koma alls staðar að af landinu og heilu saumaklúbbarnir mæta hér stundum saman og þá er sko líf og fjör get ég sagt þér. Móttökur bæjarbúa hafa verið alveg hreint yndislegar og fyrir það erum við afar þakklát. Það er búið að vera mikið að gera frá því við opnuðum hér.
Það er vissulega búin að vera skrítin staða í þjóðfélaginu í þessu Covid-ástandi en við höfum ekki fundið fyrir neinum samdrætti. Það hefur verið mikið rennirí hjá okkur alla daga og mikið um pantanir. Fólk er greinilega að nýta tímann vel við að breyta, bæta og punta heima hjá sér.
Við verðum öll að halda áfram að vera bjartsýn, við komumst í gegnum þetta ástand með jákvæðni og hækkandi sól og þá fara hjólin að rúlla aftur,” segir Ágústa að lokum og með þeim orðum kvöddumst við.

Mosfellingurinn 14. maí 2020
ruth@mosfellingur.is