Myndó flytur í Þverholtið

Ljósmyndarinn Ólína Kristín Margeirsdóttir er að flytja í Þverholtið með fyrirtækið sitt Myndó ljósmyndastofa. Ólína útskrifaðist sem ljósmyndari 2008 og hefur rekið Myndó síðan 2009 að heimili sínu í Hrafnshöfðanum þar sem hún innréttaði bílskúrinn sem stúdíó og vinnustofu.
„Stofan hefur gengið vel öll þessi ár í bílskúrnum en nú langaði mig að komast aðeins út af heimilinu og vera sýnilegri í bæjarfélaginu. Hér í Þverholtinu hef ég útbúið rúmgott, hlýlegt og þægilegt stúdíó,“ segir Ólína en samfara flutningunum hefur stofan opnað nýja og endurbætta heimasíðu, www.myndo.is.

Fjölbreytt þjónusta í boði
Ólína býður upp á fjölbreytta þjónustu, allar hefðbundnar barna- og fjölskyldumyndatökur auk auglýsinga- og vörumyndtaka. Einnig á og rekur Ólína vefina Instaprent.is, sem sérhæfir sig í að prenta instagram myndir á pappír, púða eða segla, og póster.is sem framleiðir límmiða á veggi og innrammaðar tilvitnanir og fleira.
„Ég tek að mér mjög fjölbreytt verkefni og mynda bæði hér í stúdíóinu og úti í náttúrunni. Ég afhendi allar myndir útprentaðar í albúmi og stafrænt en allar upplýsingar er að finna á heimasíðunni okkar.“

Passamyndir afhentar samstundis
„Ég sérhæfi mig í faglegum myndatökum á einstaklingum, hlutum, landslagi og fjölskyldum eða öðrum hópum. En langar að taka fram að ég býð upp á passamyndatöku þar sem myndirnar eru afhentar samstundis sem kemur sér oft vel fyrir fólk.
Einnig er ég mikið í því að taka starfsmannamyndir fyrir bæði stór og lítil fyrirtæki, þá annað hvort kemur fólk í stúdíóið til mín eða ég mæti á staðinn.“

Opnunartilboð alla helgina
„Stofan verður formlega opnuð föstudaginn 15. maí klukkan 17 til 19 og laugardaginn 16. maí milli klukkan 14 og 18. Það eru allir velkomnir og þeir sem bóka myndatöku á staðnum fá 15% afslátt.
Ég hlakka til að sjá sem flesta og vona að Mosfellingar eigi eftir að nýta sér þá þjónustu sem ég býð upp á en einnig má geta þess að ég er með úrval af myndarömmum til sölu og get einnig sérpantað fyrir fólk,“ segir Ólína að lokum.