Reisa 55 íbúðir í Vefarastræti
Verktakafyrirtækið MótX vinnur nú að því að reisa tvö ný fjölbýlishús í Helgafellshverfi. Um er að ræða þriggja til fjögurra hæða hús með samtals 55 íbúðum. 23 íbúðir við Vefarastræti 28-30 og 32 íbúðir við Vefarastræti 24-26.
„Við í MótX er mjög spenntir fyrir þessu verkefni hér í Mosfellsbæ, enda bærinn í örum vexti, innviðir góðir og bjart framundan.“ Eigendur MótX ehf. eru þeir Svanur Karl Grjetarsson, Vignir Steinþór Halldórsson og Viggó Einar Hilmarsson.
Í sátt við álfa og menn
„Hérna ætlum við að sinna markaðnum og íbúðir í réttum stærðum og á verði sem fólk ræður við,“ segir Vignir Halldórsson stjórnarformaður MótX. „Við höfum lengi haft augastað á þessu svæði enda flottar suðurhlíðar. Svo hyggst bæjarfélagið reisa hér leik- og grunnskóla í nágrenninu.
Við munum vinna þetta hratt og örugglega og ætlum okkur rúmt ár þetta. Við höfum mikla og góða trú á verkefninu.“
Vignir segist hvergi smeykur við álfa og huldufólk í sjálfum Sauðhól sem stendur við byggingarreitinn. „Ég held við náum þessu í mikilli vinsemd enda munum við koma fram við alla af virðingu,“ segir Vignir.
Verktakafyrirtækið MótX var stofnað 2005 og hefur byggt fjölda einbýlishúsa og fjölbýlishús í Kópavogi.