Tónleikadagskrá framundan í Hlégarði

Haustdagskráin í Hlégarði er farin að taka á sig mynd en nokkrir listamenn hafa boðað komu sína í félagsheimilið til áramóta. Á laugardaginn mætir Kjósverjinn Bubbi Morthens og heldur tónleika. Hann er á örstuttri tónleikaferð í nágrenni höfuðborgarinnar. Á sunnudaginn verður hann á heimavelli í Félagsgarði í Kjós en báðir tónleikarnir hefjast kl. 20:30.
Föstudaginn 6. nóvember verður hljómsveitin Dúndurfréttir með tónleika í Hlégarði. Þeir tóku generalprufu í Hlégarði í sumar við frábærar undirtektir.
Laugardaginn 5. dessember mæta svo systkinin KK og Ellen og halda jólatónleika. Tónleikar þeirra eru orðnir fastur liður í jólahaldi fjölmargra Íslendinga. Í ár verða þau á faraldsfæti líkt og áður, syngja jólalög í bland við sín eigin og segja sögur af sér sínum sem laða fram gleði og eitt og eitt tár. Með þeim verður fimm manna úrvalssveit tónlistarmanna undir stjórn hljómborðsleikarans góða Jóns Ólafssonar. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Hlégarðs.