Ráðinn framkvæmdastjóri Aftureldingar
Einar Ingi Hrafnsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar frá og með 1. maí í stað Grétars Eggertssonar sem hefur sinnt því starfi s.l. tvö ár.
„Einar Ingi er okkur vel kunnur sem leiðtogi og fyrirliði bikarmeistaraliðs handboltans í fyrra. Það má segja að Einar sé þá búinn að loka hringnum í hringrás Aftureldingar þar sem hann hefur verið iðkandi, foreldri, þjálfari og sjálfboðaliði fyrir félagið okkar þannig að reynsla hans á öllum þessum vígstöðvum mun án efa nýtast honum vel.“
Einar er með BSc-próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er masterinn handan við hornið, hann hefur starfað sem vörumerkjastjóri hjá heildversluninni Halldóri Jónssyni síðan hann kom heim úr atvinnumennsku frá Noregi.
Einar býr í Mosfellsbænum með Þóreyju Rósu Stefánsdóttur landsliðskonu í handbolta og leikmanni hjá Fram, þau eiga tvö börn.