Múlalundur, minning eða möguleiki?

Vilborg Eiríksdóttir

Það blása harðir vindar um vinnustaðinn minn Múlalund þessa dagana.
Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að upplifa þessa stöðu og ekki síst verklagið við að „loka Múlalundi“ í núverandi mynd. Hópur frábærra einstaklinga með mismunandi fatlanir fengu að vita fyrir stuttu að þeir muni missa vinnuna sína og verði að fara út á almennan vinnumarkað. Að mínu mati er þetta fjöldauppsögn í spari­fötunum.
Það eru hörð skilaboð „að ofan“ að allir öryrkjar (30 manns) sem nú eru fastráðnir á Múlalundi eigi að hætta og helst sem fyrst. Þetta er gert með aðstoð ráðgjafa Vinnumálastofnunar (VMST) sem eru að útvega störf á almennum markaði fyrir þennan hóp þrátt fyrir þá staðreynd að aðrir fatlaðir séu fastir á fjölmennum biðlista eftir vinnutilboðum. Það eru blendnar tilfinningar sem fara um hugann þegar samstarfsfólk mitt, eitt af öðru hverfur á braut með loforð um bættan hag, en jafnframt með kvíðahnút yfir næstu skrefum. Enginn veit enn sem komið er hvort restin af starfsfólkinu fái að halda sínum störfum. Hvað gerir t.d. þroskaþjálfi þegar allir fatlaðir samstarfsmenn eru farnir af staðnum?
Múlalundur á sér 65 ára sögu, sem er ákaflega merkileg að mörgu leyti. Ótrúleg fjölbreytni hefur verið í framleiðsluvörum allt frá upphafi og verkefni koma og fara eftir tíðaranda og aðstæðum í þjóðfélaginu. Fjöldi fólks með skerta starfsgetu hefur notið góðs af öll þessi ár og nýtur enn. Við vitum ekki betur en Múlalundur eigi mikilli velvild að fagna úti í samfélaginu og þeir sem þekkja til þykir vænt um staðinn og það sem hann stendur fyrir. Það var dapurlegt að heyra í fréttum forstjóra VMST tala á niðrandi hátt um úreltar framleiðsluvörur okkar sem færu beint í ruslið. Múlalundur framleiðir fjölbreyttar vörur en þær eru allar framleiddar eftir pöntunum fyrirtækja sem velja að versla við íslenskt framleiðslufyrirtæki og í leiðinni skapa vinnu fyrir starfsfólk Múlalundar. Með þessu samstarfi vinna allir!
Við á Múlalundi erum þakklát fyrir það að mörg íslensk fyrirtæki hafa leitað til okkar með allskonar skemmtileg og frábær verkefni og þannig gefið fólkinu okkar tækifæri til að mæta til alvöruvinnu og finna að þau séu virkir samfélagsþegnar sem leggja sitt af mörkum.
Vinnustaðurinn Múlalundur snýst reyndar ekki bara um verkefnin heldur er hann samfélag fólks á öllum skala fjölbreytileikans hvort sem um er að ræða fatlaða eða ófatlaða einstaklinga. Í öruggu umhverfi myndast ómetanleg félagsleg tengsl og það hefur sýnt sig í reynd að starfsfólk Múlalundar hefur fengið að blómstra og njóta sín á eigin forsendum.
Núna er hins vegar kominn brestur í undirstöðurnar. Við höfum reynt að fá svör frá ýmsum sem gætu haft með þetta mál að gera en lítið gengið og hver vísar á annan. Hvað hefur t.d. SÍBS (eigandi Múlalundar) í huga varðandi framhaldið? Við höfðum samband við Eflingu stéttarfélag og vildum vita hvort þetta væri löglegt verklag! Við reyndum að fá ÖBÍ með í málið en engar undirtektir, VMST segir okkur barn síns tíma og hættir að ausa peningum í Múlalund og ekki næst í ráðherra sem allir vísa þó á. Er það kannski þannig að starfsfólk Múlalundar séu „óhreinu börnin hennar Evu“ sem enginn vill kannast við?
Fyrir hönd minna frábæru vinnufélaga á Múlalundi

Vilborg Eiríksdóttir, þroskaþjálfi/verkstjóri