Kjúllinn klekst út

Ásgeir, Einar og Steindi.

„Okkur langaði fyrst og fremst að taka þátt í þróa og stækka bæjarhátíðina enn frekar,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr.
„Markmiðið er að bjóða upp á eitthvað nýtt á hátíðinni og vonandi byggja ofan á það á komandi árum,“ bæta Ásgeir Jónsson og Einar Gunnarsson við en þremenningarnir standa fyrir viðburðinum Kjúllanum sem fer fram föstudaginn 25. ágúst á bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.

Kjúllagarðurinn fram að brekkusöng
„Á Kjúllanum er eitthvað fyrir alla. Við opnum Kjúllagarðinn kl. 15.00 á föstudaginn og öll dagskrá miðast svo við setningarathöfnina sem bæjarbúar þekkja svo vel og brekkusönginn í Álafosskvos,“ segir Ásgeir en á dagskrá eru matarvagnar, bar og ýmis afþreying fyrir fullorðna og börn.
„Við verðum með geggjaða aðstöðu í garðinum og við viljum fá bæjarbúa í stuðið til okkar áður en haldið er í Kvosina.
Meistaraflokkarnir í handbolta henda í borgara, það koma matarvagnar frá Götubitanum, Kastalar verða með hoppukastala, teygjurólu, vatnabolta og veltibílinn verður á staðnum,“ segir Ásgeir og Steindi bætir við: „Þeir sem eru svo í algjöru stuði henda sér inn á Tix.is, kaupa miða og mæta svo í partí í Hlégarði eftir brekkuna.“

Gamla góða Mósó-partíið
Aðspurðir hvaða áskoranir fylgi svona verkefni hlæja þeir félagar. „Aðeins fleiri en komu upp í hugann þegar við vinirnir settumst niður yfir einum köldum snemma í sumar,“ segir Einar.
„Við vorum ákveðnir í að henda í alvöru partí og erum að henda upp geggjuðu hljóðkerfi, ljósum og öllum pakkanum sem þarf undir þetta line-up,“ segir Steindi en ásamt honum koma fram Auðunn Blöndal, Aron Can, Bríet og Sprite Zero Klan.
„Við viljum fá fólk á öllum aldri. Það hefur alltaf verið einn helsti kostur Mosó að hér þekkjast flestir og geta skemmt sér saman. Þetta hefur verið rauður þráður í skemmtanalífi okkar Mosfellinga um árabil,“ bætir Ásgeir við.

Kjúklingabærinn
En hvaðan kemur nafnið?
„Kjúllinn hefur loðað við okkur lengi enda handboltaliðin okkar árum saman verið studd dyggilega af bændum hér í bæ, frosnir kjúllar flogið inn á völlinn og fleira skemmtilegt. Okkur fannst það bara smellpassa,“ segja þremenningarnir og hlakka til helgarinnar.