Palli hjólar

Ég fór í fjallahjólaferð með gömlum vinum úr #110 um þar síðustu helgi. Þetta var frábær ferð, en það sem gladdi mig mest var að upplifa einn af félögunum, köllum hann Palla, slá í gegn á hjólinu. Palli æfði fótbolta eins og við hinir, en hætti snemma. Hann var ekki í öðrum íþróttum og hefur aldrei verið mikið fyrir að mæta reglulega á æfingar. Hann var orðinn frekar þungur á sér fyrir nokkrum árum og var ekki sáttur við það.

Tók hann þá ákvörðun að byrja að hjóla í vinnuna og fékk það fína ráð frá atvinnuhjólaranum í hópnum okkar að gera þetta að daglegri venju. Ekki velja bara sólardaga og daga þar sem er meðvindur í réttar áttir á hjólastígunum. Palli gerði þetta, hann er búinn að hjóla í vinnuna alla daga í dágóðan tíma, sama hvernig viðrar. Þetta er viðráðanleg vegalengd, en það er ekki aðalatriðið, heldur það að hann hjólar þessa leið alla daga. Stundum velur hann lengri leið þegar hann hjólar heim, fer eftir aðstæðum og skapi.

Palli er ekki að æfa fyrir járnkall eða landvætti. Hann er ekki að keppa við neinn. Hann einfaldlega fann leið til þess að koma daglegri hreyfingu inn í lífið. Hreyfingu sem kemur honum í betra form og lætur honum líða betur. Þetta hefur áhrif á svo margt. Veiðiferðir, fjallgöngur, útileikir við krakkana og svo auðvitað hjólaferðir með félögunum verða bæði auðveldari og skemmtilegri þegar úthaldið er gott.

Við getum lært margt af Palla. Til dæmis hvað það gefur mikið að hreyfa sig daglega og tengja hreyfinguna við daglega athöfn (vinnan í hans tilviki). Sömuleiðis að það er ekki nauðsynleg að eiga árskort í líkamsrækt til þess að koma sér í form. Það er aldrei of seint að byrja, allt sem til þarf er að taka ákvörðun og standa við hana.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. ágúst 2021