Gerum þetta saman

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Nú þegar skólastarf hefst að nýju eru grunnskólanemendur fullir eftirvæntingar að mæta í skólann sinn eftir sumarfrí. Einnig er að færast líf í starfið á leikskólunum eftir gott sumar og líf okkar allra að færast í fastar skorður. Við vonuðum í vor að kórónuveirufaraldurinn yrði vond minning þegar skólar hæfust nú í haust, en við verðum því miður að kljást við veiruna eitthvað áfram.
Ljóst er orðið að skólastarf verður með einhverjum takmörkunum í vetur með tilheyrandi púsli. Nú er vitað að veiran getur lagst illa á börn og það er hlutverk okkar fullorðna fólksins að verja þau. Það gerum við með því að fara eftir þeim reglum sem settar eru og huga að persónulegum sóttvörnum. Þetta kunnum við allt.
Megin­áherslan er þó að verja skólastarfið og reyna að tryggja að það verði sem eðlilegast. Til að það gangi eftir þurfum við að standa saman og leggja af stað inn í þennan vetur með bjartsýni og samheldni að vopni.

Skólarnir okkar – hvað er nýtt?
Varmárskóla hefur verið skipt í tvennt og heitir eldri deildin nú Kvíslarskóli. Það hefur vart farið framhjá bæjarbúum. Kvíslarskóli hefst kl. 8.30 í stað 8.10 í vetur samkvæmt ósk frá SAMMOS, samtökum foreldrafélaga grunnskóla í Mosfellsbæ. Breyting sem þessi hefur reynst vel annars staðar og vonandi verða unglingarnir okkar ánægðir með að fá að sofa aðeins lengur.
Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn í yngri deildina og bjóðum við Jónu Benediktsdóttur hjartanlega velkomna til starfa með okkur. Nýju fólki fylgja nýjar áherslur og verður áhugavert að fylgjast með skólaþróun í Varmárskóla á næstu árum.
Í Helgafellsskóla hefur nýr áfangi, sem hýsir unglingadeildina, verið tekinn í notkun og verður gaman að sjá deildina blómstra í höndum eldhuganna sem þar starfa. Á Huldubergi og Hlíð verða yngstu börnin á ungbarnadeildum en mikið kapp hefur verið lagt í að aðlaga útisvæðin að þörfum yngstu barnanna. Á Höfðabergi verða 3 – 5 ára börn í góðum höndum og sex ára börnin fara aftur í stóru byggingu Lágafellsskóla. Hér er eingöngu stiklað á stóru því hver skóli iðar af lífi þar sem framsækið og öflugt fólk hefur ráðist til starfa sem ber hag unga fólksins okkar fyrir brjósti. Ég hlakka til að fylgjast með starfi þeirra í vetur.

Skólasamfélagið í Mosfellsbæ
Það er hlutverk bæjaryfirvalda að standa við bakið á skólafólkinu okkar svo það fái að blómstra og þróast í starfi.
Skólastarf í hverju sveitarfélagi er það sem skiptir íbúana mestu máli og þess vegna viljum við gera eins vel og mögulegt er. Markmiðið er að nemendur eflist og styrkist í starfi og kveðji skólann sinn í lok 10. bekkjar vel undir það búin að taka næstu skref inn í framtíðina. Þá hefur okkur tekist ætlunarverkið.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar