Um misvægi

Guðmundur Andri Thorsson

Eftir síðustu Alþingiskosningar vantaði átta atkvæði upp á að Kópavogsbúinn Margrét Tryggvadóttir yrði annar þingmaður Samfylkingarinnar fyrir Kragann.
Fyrir vikið varð þingflokkur Samfylkingarinnar manninum færri en þingflokkur Framsóknarflokksins – þrátt fyrir að Samfylkingin hefði fengið rúmlega 2500 fleiri atkvæði en Framsókn á landsvísu. Nú er ég kominn í annað sætið – og er út um allt að svipast um eftir þessum átta …

Sjálfur varð ég sá þingmaður sem hafði flest atkvæði á bak við sig á síðasta þingi – sem kannski er viss upphefð – en ég hefði samt frekar viljað hafa hana Möggu með mér. Það hefði hún líka verið ef atkvæði okkar í Kraganum hefðu ekki miklu minna vægi en atkvæði fólks sem býr í öðrum landshlutum.
Þegar kosningalög voru samþykkt undir lok þingsins reyndum við að koma á einfaldri leiðréttingu á þessari skekkju, með fjölgun jöfnunarþingsæta – auk mín lögðu fram málið Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir frá Viðreisn og Píratinn Björn Leví Gunnarsson. Í gamla daga var stundum talað um „lýðræðisflokkana“ til aðgreiningar frá meintum alræðissinnum. Kannski er ástæða til að endurvekja þetta hugtak um þá flokka sem studdu þessa tillögu.

Við sem lögðum málið fram gerðum það í samráði við Þorkel Helgason, þann mann sem mest og best þekkir til kosningalaganna og við tókum líka mið af umsögn Ólafs Þ. Harðarsonar um kosningalagabreytingarnar svo að ekki er hægt að afgreiða þessa tillögu okkar sem hugdettu á síðustu stundu.
Stjórnarliðar sögðu að ekki hefði farið „næg umræða fram“, eins og jafnt kosningaréttur sé álitamál sem þurfi að ræða, en ekki grundvallar-mannréttindi sem við öðlumst um leið og við höfum aldur til. Stundum heyrist í þessari umræðu að slík forréttindi og hagræði fylgi því að ýmsar stofnanir hafi höfuðstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu að réttlætanlegt sé mismuna fólki þegar kemur að kosningarétti.
Það er vissulega ástæða til að jafna hlut byggðanna – og ótal tækifæri sem gefast til þess á okkar netvæddu tímum, en kosningaréttinn á ekki að nota til þess, frekar en önnur mannréttindi. Misvægi á einum stað verður ekki lagað með misvægi á öðrum stað.

Það ríkti almenn sátt um það frá árinu 1987 að minnsta kosti, að jafna bæri vægi flokkanna og Alþingi hefur nokkrum sinnum tekist að gera það. En í þremur síðustu kosningum hafa Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hins vegar skipst á að fá aukamann umfram það sem þeim ber samkvæmt atkvæðavægi. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða,“ er haft eftir forsætisráðherra um málið.
Ef við fáum til þess styrk í komandi kosningum þá er þetta hins vegar eitthvað sem við ætlum að breyta. Þá þurfa þessi átta að skila sér …

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar
í Suðvesturkjördæmi og skipar annað sæti listans í komandi kosningum