Öflug stuðningsþjónusta fyrir eldri Mosfellinga
Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag og mun halda áfram að stækka. Í bæinn okkar flytja íbúar sem hafa aldrei búið hér áður, eða eru kannski að snúa til baka eftir að hafa alist hér upp bæði ungir sem aldnir, stórar fjölskyldur eða pör og einstaklingar sem eru að feta sín fyrstu skref á eigin fótum.
Við sem hér búum viljum líka fá foreldra okkar til að vera nær okkur og flytja í Mosó. Eitt af því sem hefur verið rætt á fundum hjá okkur í Öldungaráði Mosfellsbæjar er það hvaða þjónusta er í boði fyrir eldri Mosfellinga, og hvort þeir sem þurfa á þjónustunni að halda séu meðvitaðir um það sem þeir eiga rétt á. Hvar finna þeir upplýsingarnar og við hvern á að tala?
Það er ýmis þjónusta í boði fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ sem þarfnast stuðnings. Eldra fólk sem ekki getur séð hjálparlaust um heimilishald eða persónulega umhirðu getur sótt um stuðningsþjónustu hjá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Í stuðningsþjónustu felst einstaklingsbundin aðstoð sem metin er hverju sinni af sérmenntuðu fagfólki á fjölskyldusviði og getur falið í sér t.d. heimaþjónustu, félagslegt innlit, heimsendan mat sem og ráðgjöf við einstaklingana sjálfa og aðstandendur þeirra.
Mikil áhersla hefur verið lögð á það hjá Mosfellsbæ að efla stuðningsþjónustu við eldri borgara með það að markmiði að gera fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsi. Reglubundið samráð og samstarf milli heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu hefur verið komið á laggirnar til að tryggja að þörfum fólks fyrir stuðning verði mætt sem best sem og að tryggja öllum samfellu í þjónustu. Við viljum fyrst af öllu að allir Mosfellingar geti átt áhyggjulaust ævikvöld og notið þess með okkur hinum sem hér búa. Það hefur verið markmið okkar að bæta þjónustuna og það verður það áfram.
Nú er komin í loftið ný og endurbætt heimasíða hjá Mosfellsbæ www.mos.is þar sem tilvonandi notendur og aðstandendur þeirra geta fundið allar upplýsingar sem og að hafa samband við þjónustuverið til að fá aðstoð.
Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúi, formaður fjölskyldunefndar,
Öldungaráðs og frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar 14. maí 2022