Öflug og fagleg uppbygging í Mosfellsbæ
Um þessar mundir er mikil umræða um húsnæðisskort á höfuðborgarsvæðinu sem er auðvitað áhyggjuefni.
Fram til ársins 2040 er því spáð að það muni fjölga um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnun Samtaka iðnaðarins verða fullgerðar 6.713 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á ári til 2020, eða að meðaltali rúmlega 2.200 íbúðir á ári. Flestar íbúðir eru í byggingu í Reykjavík samkvæmt talningunni, eða 1.726 talsins. Það er um 3,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Það er þó talsvert undir meðaltali sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem er 4,7%.
Hlutfallslega mest byggt í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ er hlutfallið hæst, en þar eru í byggingu 550 íbúðir sem gerir um 15,3% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu. Á þessum tölum sést að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa staðið sig mjög vel í að skipuleggja hverfi til uppbygginga á lóðum til þess að mæta þessari miklu þörf sem er á lóðum undir nýtt íbúðarhúsnæði. Þessi þróun mun halda áfram næstu árin og því er mikilvægt að halda vel utan um skipulags- og umhverfismál í Mosfellsbæ eins og gert hefur verið undanfarin kjörtímabil.
Helgafellshverfið byggist hratt upp
Þegar ný hverfi eru að byggjast upp getur verið álag á þá íbúa sem fyrst flytja inn í hverfið vegna allra þeirra framkvæmda sem eru í gangi. Það nýja hverfi sem er í hraðastri uppbyggingu þessi misserin er Helgafellshverfið sem verður glæsilegt suðurhlíðarhverfi undir Helgafellinu.
Hverfið verður blanda af nýtísku fjölbýlishúsum í miðju hverfisins (auganu) með nýja og öðruvísi götumynd en í eldri hverfum bæjarins. Út frá þessum miðjukjarna sem er að byggjast fyrst upp í hverfinu koma svo lágreistari hús með áherslu á sérbýli. Með því að horfa á hverfið eins og það er í dag í miðri uppbyggingu þá höfðum við áhyggjur af útliti hverfisins og einnig af byggingamagninu. Þær áhyggjur reynast óþarfar því byggingamagn hefur ekki verið aukið sem neinu nemur frá upphaflegum áætlunum. Þegar uppbyggingu hverfisins verður lokið þá verður það mjög fallegt og nýtískulegt með nýjan glæsilegan Helgafellsskóla í hjarta hverfisins og náttúruna allt um kring.
Nýr miðbær í Mosfellsbæ
Nýr miðbær er einnig að rísa í Mosfellsbæ með um 250 íbúðum ásamt þjónustu og verslunarrýmum. Þessi framkvæmd mun gjörbreyta ásýnd miðbæjarins og þjónusta mun aukast bæjarbúum til hagsbóta.
Mikil uppbygging hefur verið í atvinnuhúsnæði að undanförnu í Mosfellsbæ og má þar nefna lóðir í Desjamýri og á Tungumelum. Í stefnu okkar Sjálfstæðisfólks eru áform um áframhaldandi úthlutun á lóðum undir atvinnuhúsnæði til þess að mæta þeim þörfum sem eru á þeim markaði, og til þess að fá í bæinn fjölbreytt og öflug fyrirtæki.
Áframhaldandi fagleg uppbygging.
Stækkun Mosfellsbæjar mun halda áfram á næstu árum og ný hverfi þurfa að byggjast upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru. Við eigum einstaka náttúru allt í kringum bæinn okkar og þurfum að gæta að grænu svæðunum sem eru okkur mikilvæg. Við viljum að bærinn okkar verði áfram sveit í borg með fjölbreytta útivistarmöguleika þrátt fyrir fjölgun fólks og uppbyggingu nýrra hverfa. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi í þessari uppbyggingu og því er mikilvægt að skipulags- og umhverfismál verði áfram í traustum höndum okkar Sjálfstæðisfólks eftir kosningarnar 26. maí. Til þess að svo verði þurfum við þinn stuðning, kjósandi góður.
Ásgeir Sveinsson er í 2. sæti á lista
Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og
Helga Jóhannesdóttir er í 7. sæti listans.