Nýtt starfsfólk í Lágafellssókn
Sigurður Rúnar Ragnarsson mun gegna stöðu sem þriðji prestur í Mosfellsprestakalli til júní 2021. Hann er fyrrverandi sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli. Hann vígðist til Mosfellsprestakalls og Lágafellssóknar sem prestur vorið 1998 og starfaði við Lágafellssókn frá vígslu til júní 1999 er hann fékk Norðfjarðarprestakall.
Hér í Mosfellsbæ var hann búsettur frá árinu 1978 til ársins 1999. Hann hefur undanfarið ár, vegna breytinga á prestaköllum á Austfjörðum, verið í sérþjónustu á Biskupsstofu og gegnt ýmsum störfum við prestaköllin á Austurlandi.
Eiginkona Sigurðar Rúnars er Ragnheiður Hall og eiga þau þrjú börn, Ragnar Árna, Þóru Kristínu og Katrínu Halldóru.
Oddný Sigrún nýr rekstrarstjóri
Í byrjun árs tók til starfa nýr rekstrarstjóri Lágafellssóknar, Oddný Sigrún Magnúsdóttir. Hlutverk rekstrarstjóra er daglegur rekstur og bókhald Lágafellssóknar. Oddný Sigrún er viðurkenndur bókari og hjúkrunarfræðingur að mennt. Síðustu 20 ár hefur hún rekið sitt eigið fyrirtæki ásamt manni sínum.
Nýr æskulýðsfulltrúi
Nýr æskulýðsfulltrúi tók til starfa í byrjun september og heitir hann Bogi Benediktsson. Bogi mun hafa umsjón með æskulýðsstarfi Lágafellssóknar, sunnudagaskólanum kl. 13 og unglingastarfinu á þriðjudögum kl. 20. Einnig hefur hann umsjón með kirkjugörðum Lágafellssóknar og sér um heimasíðu og samfélagsmiðla. Allar nánari upplýsingar um starfsemi kirkjunnar má finna á www.lagafellskirkja.is