Nýtt flokkunarkerfi tekið í notkun á næstu vikum
Það styttist í að Mosfellingar fái afhentar nýjar tunnur, körfur og bréfpoka undir matarleifar. Nýtt og samræmt flokkunarkerfi verður innleitt á næstu vikum þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili.
Stærsta breytingin er sú að íbúar fá tunnu fyrir matarleifar ásamt tunnu fyrir pappír og plast. Sorptunnurnar verða endurmerktar en sú gráa verður undir plast, bláa áfram undir pappa og svo bætist við tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang. Öll heimili fá plastkörfu og bréfpoka til að safna matarleifum innanhúss og verður það afhent með tunnunni.
Tunnunum dreift á sex vikna tímabili
„Spennandi skref í hringrásarhagkerfinu og til þess gert að lágmarka þann úrgang sem þarf að grafa,“ segir Katrín Dóra Þorsteinsdóttir verkefnastjóri.
Áætlað er að fyrstu tunnurnar komi samhliða sorphirðu fimmtudaginn 25. maí og verður dreift yfir sex vikna tímabil. Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, Heiða Ágústsdóttir og Bjarni Ásgeirsson ásamt fleira starfsfólki og fulltrúum úr umhverfisnefnd verða á bókasafninu til að spjalla við íbúa, fræða þá og svara spurningum. Þau verða á bókasafninu 25. maí, 1. og 8. júní kl. 16-18 og 3. júní kl. 11-13.
Nánari upplýsingar um dreifingaráætlun fyrir tunnurnar má finna í blaðinu í dag auk þess sem allar helstu upplýsingar um verkefnið eru á mos.is og flokkum.is.