Nauðsynlegt fyrir alla að huga vel að fótunum
Mosfellingurinn Eyrún Linda Gunnarsdóttir löggiltur fótaaðgerðafræðingur útskrifaðist með hæstu einkunn frá Keili í janúar. Í kjölfarið opnaði hún fótaaðgerðastofuna Heilir fætur í verslunarkjarnanum í Hverafold í Grafarvogi.
„Samkvæmt Félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga eru helstu störf fótaaðgerðafræðinga fyrst og fremst að viðhalda og upplýsa almenning um heilbrigði fóta. Þeir greina og meðhöndla algeng fótavandamál eins og sveppasýkingar, vörtur, líkþorn, inngrónar táneglur og siggmyndun. Einnig bjóða þeir upp á sérsmíðuð innlegg og hlífðarmeðferðir sem ætlað er að létta á hinum ýmsu svæðum fótanna og þannig draga úr verkjum eða meinamyndunum,“ segir Eyrún Linda.
Allir gildir fyrir fótaaðgerð
„Ég tel að fótaumhirða sé mjög mikilvæg, sér í lagi hjá fólki með sykursýki, taugasjúkdóma, gikt, húðsjúkdóma, íþróttameiðsli eða sem einfaldlega á erfitt með að sinna fótunum sjálft. Svo eru auðvitað allir velkomnir sem vilja gera vel við sig.
Hægt er að fjárfesta í gjafabréfi á stofunni sem er að margra mati mjög sniðug gjöf fyrir þá sem eiga allt. Opið er á stofunni frá 9 á morgnana til 16 á daginn eða eftir samkomulagi og hægt er að bóka utan opnunartíma.“
Við eigum bara eitt sett af fótum
„Full meðferð í fótaaðgerð felur í sér fótabað, klipptar neglur og þynningu ef þess þarf ásamt snyrtingu niður með hliðum nagla. Einnig er sigg minnkað, líkþorn fjarlægð séu þau til staðar og fótanudd með góðu fótakremi í lokin.
Allir eru gildir fyrir fótaaðgerð hvort sem um er að ræða börn, unglinga, ungt fólk eða eldra. Við erum bara með eitt sett af fótum sem þarf að huga vel að,“ segir Eyrún Lind að lokum en hægt er að nálgast allar upplýsingar um stofuna á facebook síðunni Heilir fætur – fótaaðgerðastofa.