Vallarhúsið að Varmá fær yfirhalningu

vallarhusid_mosfellingur

Undanfarnar vikur hafa heilmiklar framkvæmdir átt sér stað í Vallarhúsinu að Varmá. Nokkrir vaskir sjálfboðaliðar úr röðum Aftureldingar hafa unnið að því hörðum höndum að taka húsnæðið í gegn sem hefur undanfarin ár þjónað sem félagsheimili Aftureldingar.
Þann 2. febrúar sl. var Aftureldingu úthlutað 1.000.000 kr. úr Samfélagssjóði Kaupfélag Kjalnesþings. Þeir fjármunir hafa verið nýttir til að endurnýja húsakostinn. „Þetta er mikil búbót fyrir félagið að geta endurnýjað þess aðstöðu, borð, stóla, eldhús og annað nytsamlegt. Öll vinna var unnin í sjálfboðavinnu. Við fengum svo frábæra viðbót frá bænum og gátum því skipt um gólfefni líka. Við nýttum tækifærið til að mála og breyta okkur til hagræðingar,“ segir Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar.
„Við hlökkum ákaflega til að klára vinnuna í vikunni og geta boðið iðkendum okkar og forráðamönnum upp á huggulegt húsnæði sem nýta má í félagsstarfið okkar.”