Munum að njóta augnabliksins

Berta Þórhalladóttir

Berta Þórhalladóttir

Nú fer senn að líða að jólum og lífsgæðakapphlaupið eykst til muna. Stressið og álagið færist í aukana og við þeytumst um göturnar eins og sjálfvirk vélmenni sem varla eru til staðar.
Við mætum í vinnuna og eigum við þá eftir að versla inn, útbúa mat, taka til og að sinna börnunum okkar. Ekki má gleyma að jólin nálgast og þá bætast við hin ýmsu verkefni eins og að skreyta, versla jólagjafirnar, hitta vini og ættingja í jólaboðum og mæta ef til vill á jólaskemmtanir.

Hér koma tvö atriði sem gott er að vera meðvitaður um áður en álagið yfirtekur gleðina í lífinu.
1. Staldra við til að njóta augnabliksins. Oft á tíðum erum við föst í daglegri rútínu, þá getur gleymst að anda inn og út og fanga þau einstöku augnablik sem skipta okkur máli.
Ég mæli því eindregið með að stoppa og staldra við, allavega einu sinni á dag og vera meðvitaður um það sem þú ert að gera hér og nú. Því oftar sem við náum að tileinka okkur að staldra við eitt augnablik, standa eða líta upp frá þeim verkefnum sem við erum að takast á við, þá verður okkur ljóst mikilvægi þess að vera meðvitaður um umhverfið og okkur sjálf.

2. Sjálfsrækt. Í nútímasamfélagi gleymum við oft að hlúa að sjálfum okkur, við erum svo upptekinn af að þóknast öðrum, hugsa um börnin, makann, hitta vini og vinnufélaga. Ég er ekki að segja að þetta sé ekki mikilvægur þáttur en það er einnig mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér. Sérstaklega þegar við erum undir miklu álagi.
Sjálfsrækt þarf alls ekki að taka langan tíma en getur skipt sköpum fyrir andlega heilsu. Dæmi um sjálfsrækt er að fara í göngutúr, lesa góða bók, fara í heitt bað eða skella sér í ræktina.
Ég vona þetta komi að góðum notum fyrir ykkur í jólagleðinni – munum að njóta hverrar stundar.
Yfir og út.

Berta Þórhalladóttir
Kennir Tabata í World Class Mósó á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20.