Sitthvað um trjárækt

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Við hjónin fluttu í Mosfellssveit fyrir 35 árum, keyptum lítið raðhús í Arnartanganum.
Ég man fyrstu árin okkar á nýja staðnum og hversu skelkuð ég var oft þegar óveðrin gengu yfir á veturna og ég var alltaf að bíða eftir að rúðurnar myndu splundrast þegar þær bylgjuðust út og inn. Þá var lítið um hávaxinn gróður og frekar skjóllítið. Við búum ennþá á sama staðnum en í dag er mjög skjólgott hérna og maður finnur varla fyrir óveðrum lengur. Hvað veldur? Jú, í flestum görðum hér í kring eru tré, sum jafnvel há og krónumikil. Austan við Arnartanga er þreföld röð af háum og fallegum öspum sem tekur allan mátt úr austanrokinu sem er aðalóveðursáttin hér.
Í Varmárskólanum þar sem ég vann lengi vel var oft erfitt að hafa börnin úti í frímínútunum. Það var nefnilega efnisnáma austan við skólann og í hvassviðri var mikið sandfok yfir svæðið, alveg inn í Holtahverfið. Þá var ekki verandi úti. Í dag er þarna fallegt útivistarsvæði, svonefndur Ævintýragarður sem býður upp á marga möguleika. Bærinn hefur gert mjög gott á sínum tíma að kaupa þetta land og græða upp. Sandfok og skaflamyndun við skólann og í Holtahverfinu heyrir að mestu sögunni til.
Það er vitað mál að ræktun á skógi og skjólbeltum hefur veruleg áhrif á nærveðrið. Og svo tölum við ekki einu sinni hér um alla kolefnisbindingu sem skógræktin skapar. „Græni trefillinn” á höfuðborgarsvæðinu tekur á sig betri og betri mynd. Þar leggja bæjarfélögin sitt af mörkum að græða upp og skapa skjól á stærri skalanum.
Víðar í bæjarlandinu okkar vaxa upp myndarlegir skógar. Skógræktarfélagið okkar hefur mestan heiðurinn af því. En undanfarið hefur bærinn einnig komið að þessu. Það er ekki lengur á færi fámenns hóps áhugamanna að sinna öllu því sem fellur til við umhirðu skógana.
Skiptar skoðunar eru um það hvar á að rækta tré og hvaða tegundir. Hávaxin tré eins og ösp og greni eiga ekki allstaðar heima. Ekki í litlum görðum og ekki á stöðum þar sem við viljum njóta útsýnisins. Ösp og greni eru hins vegar afar gagnleg til skjólmyndunar á opnum svæðum, þau vaxa hratt og þola flest allt. Til að losna við leiðinlega fræullaþekju frá öspunum má passa sig á að nota karlkyns plöntur. Öspin er nefnilega sérbýlistré, sem sagt annaðhvort karl eða kona.
Þeir sem vilja ekki há tré í görðunum sínum ættu að huga vel að tegundarvali. Ekkert er ljótara en að sjá tré sem er búið að „kolla“, saga ofan af. Og öspin sem er búið að misþyrma þannig „þakkar fyrir sig“ með því að mynda ótal rótarskot.
Þar sem ég á heima er örstutt á göngustíg með frábæru útsýni á Esju og Leiruvoginn. Þarna geng ég oft við sólarlag eða stjörnubjartan himin og norðurljós. Á svona stöðum á ekki að planta trjám sem munu skyggja fyrir útsýni. Því miður hafa menn þarna plantað, meira af kappi en forsjá, sitkagreni sem eru núna að ná metrahæð. Eftir nokkur ár munu þau spilla útsýninu. Þá er hætta á að menn taki lögin í sínar hendur og fella eða skemma þessi tré. Nú þegar ber svolítið á því. Metra há tré eru verðmæt og hægt væri að flytja þau annað, á staði þar sem vantar skjól, t.d. við skóla, leikvelli og útikennnslusvæði. Eða allavega leyfa skógræktarfélaginu að taka fallegustu trén og selja sem jólatré og bjarga þar með verðmætum.
Það má segja að skógrækt á Íslandi sé að slíta barnskónum. Hún er ennþá ung grein en á sér greinilega mikla framtíð. Fagþekkingin er að aukast og aðferðir verða sífellt betri og árangursríkari.
Mosfellsbærinn okkar er fallegur og grænn bær með marga möguleika til útivistar. Höldum áfram að rækta skóg og bæta landið á þar til heppilegum stöðum með heppilegum tegundum.

Úrsúla Jünemann, kennari á eftirlaunum, leiðsögumaður og náttúruvinur.