Leyndarmál tískunnar

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Við lifum á tímum skyndibita og skynditísku. Þegar við opnum blöðin, eyðum tíma á fésbók eða vöfrum um á alnetinu er endalaust verið að kynna okkur fyrir nýjustu tísku.
Það þykir algjörlega saklaust að kaupa sér nýjasta stílinn, jafnvel þó að fataskápurinn sé troðfullur. Það eru ný mynstur, ný snið, nýir litir sem koma í búðirnar reglulega og þá finnst mörgum erfitt að vera í tísku síðasta árs. Eða hvað?

Ég þekki fólk sem kaupir nær aldrei nýjar vörur umhverfisins vegna, byrjar fyrst að skoða það sem það vantar í t.d. Kolaportinu eða búðum Rauða krossins. Margar af mínum uppáhaldsflíkum í gegnum tíðina hafa verið fundnar í búðum góðgerðasamtaka í þeim borgum sem ég hef búið í. Börnin mín ólust upp í fötum sem ég keypti fyrir lítið fé í sams konar búðum. Samt voru þau alltaf fín, enda rata föt þeirra sem eyða miklu fé í föt til t.d. Rauða krossins. Í Mosfellsbæ er haldinn reglulegur skiptimarkaður á barnafötum þar sem fólk getur komið með þær flíkur sem börnin þeirra hafa vaxið upp úr og fengið stærri flíkur sem þau passa í. Þetta er algjörlega frábært tækifæri, en mjög fáir nýta sér þennan skiptimarkað. Hvers vegna skyldi það vera? Líklega er það vegna þess að fólk gerir sér ekki grein fyrir þeim umhverfisáhrifum sem fataframleiðsla veldur.

Tökum t.d. hettupeysu úr bómull. Það þarf yfir 10.000 lítra af vatni til að framleiða peysuna! Það væri nóg drykkjarvatn fyrir 13 manns í ár! Það þarf 15.000 lítra af vatni til að framleiða gallabuxur. Fataiðnaðurinn er í topp 5 sætum þess iðnaðar sem mengar mest í heiminum – og er þar í hópi með olíuframleiðendum. Eitt hundrað milljarðar nýjar flíkur eru framleiddar árlega. Bómull er nýtt í 43% af flíkum sem eru seldar í Evrópusambandinu. Á bómullarökrum er notað skordýraeitur sem mengar vatn og er skaðlegt fyrir þá sem vinna á ökrunum. Efnin eru lituð með litarefnum sem skaða þá sem vinna við litunina og mengar vatn. Í Indónesíu, þar sem 400 fataverksmiðjur er að vinna á bökkum Citarum-ánnar, er að finna eitruðu þungmálmana kvikasilfur, kadmíum, blý og arsenik. Aralvatn í Kazakhstan hefur stórminnkað vegna áveituvatns til bómullarræktunar.

Þegar við kaupum okkur ódýran skyndibómullarbol sem er aðeins notaður í nokkur skipti og lendir síðan í gámi í Sorpu, erum við ekki að borga fyrir allan þann kostnað sem til féll við framleiðslu bolsins. Við borgum ekki fyrir umhverfisáhrifin, heilsuáhrifin eða samfélagsáhrifin. Algjör vitundarvakning er nauðsynleg til þess að fá fleiri til að hugsa sig um tvisvar áður en skroppið er í búð til að kaupa enn eina flíkina.

Á Íslandi getum við staðið okkur miklu betur, verslað í búðum sem selja notuð föt eða tekið þau í skiptimarkaði Rauða krossins. Þið eruð öll velkomin á skiptifatamarkað í húsnæði Rauða kross Mosfellbæjar í Þverholti 7 á miðvikudögum frá 13-16 (13-18 eftir áramót) þar sem unnt er að skipta á fötum á börn 12 ára og yngri. Þannig getið þið orðið umhverfisvinir og um leið kennt börnunum ykkar að láta sig umhverfið varða.
Þess má geta að fatamarkaðurinn verður einnig í Kjarna þann 1. desember ásamt fleiri góðum gestum. Tilvalið til að gera jólainnkaupin á hagkvæman og vistvænan máta.

Kristín Vala Ragnarsdóttir,
meðstjórnandi hjá Rauða kross Mosfellsbæjar