Ull er gull! – Ístex 30 ára

Afmælisveisla í húsakynnum Ístex að Völuteigi. Gunnar Þórarinsson stjórnarformaður, Jón Haraldsson verksmiðjustjóri, Védís Jónsdóttir höfundur afmælisprjónabókarinnar Ístex 30 ára, Rebekka Kristjánsdóttir sölustjóri og Sigurður Sævar Gunnarsson framkvæmdastjóri Ístex.

Stórafmæli Ístex (Íslenskur textíliðnaður) var fagnað að Völuteigi föstudaginn 15. október. Íslenskur lopi er gífurlega vinsæll um þessar mundir og hefur spunaverksmiðjan í Mosfellsbæ ekki undan að framleiða. Myndast hafa biðlistar eftir vörum úr ullarbænum Mosfellsbæ. 
Íslenskur textíliðnaður hf. (Ístex hf.) var stofnað 15. október 1991 og á því 30 ára afmæli um þessar mundir. Ístex er ullarvinnslufyrirtæki sem vinnur að því að skapa sem mest verðmæti úr íslenskri ull. Hluthafar félagsins eru nú 2.485 talsins og flestir þeirra eða um 80% eru bændur eða eiga rætur í sauðfjárbúskap.
Fyrirtækið rekur ullarþvottarstöð á Blönduósi og spuna- og bandverksmiðju í Mosfellsbæ. Ullarvinnsla í Mosfellsbæ hefur staðið samfleytt frá árinu 1896, áður undir nafninu Álafoss.

Handprjónaband úr íslenskri ull
Ístex kaupir ull beint frá bændum en félagið þvær og meðhöndlar um 99% af allri íslenskri ull. Ístex miðar að því að lágmarka umhverfisáhrif sín. Þvegin ull frá Blönduósi er vottuð samkvæmt OEKO-TEX 100 staðli. Markmið Ístex er að framleiða hágæða vörur úr íslenskri ull fyrir þá sem kjósa náttúrulegar, sjálfbærar og umhverfisvænar vörur.
Ístex í Mosfellsbæ framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull og má þar nefna Álafosslopa, Einband, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa. Áhugi fyrir Lopa í prjónaskap er gríðalegur. Prjónarar tengjast sterkum böndum við land, sögu og þjóð, ásamt fjölbreyttri og spennandi prjónauppskriftaflóru.
Þessi markaður hefur vaxið ört undanfarin ár bæði hérlendis og erlendis, en um 60% af sölu Ístex fer fram erlendis. Svipaða sögu er að segja um aðrar vörur úr íslenskri ull eins og ullarteppi, Lopidraumur sængurnar og Lopiloft ullareinangrun í fatnað.
Ístex gaf út á afmælisdeginum bókina Lopi 41 með 30 nýjum prjónauppskriftum eftir Védísi Jónsdóttir. Bókin stefnir í það að verða metsölubók, en meira en 1.500 eintök seldust fyrstu vikuna.

Fleiri myndir úr afmælisveislunni má finna í nýjasta tölublaði Mosfellings.