Mosfellskt hlaðvarp um bókmenntir
Vinkonurnar Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir eru með hlaðvarpið Listin og lífið sem aðgengilegt er á öllum helstu streymisveitum.
Þar fjalla þær stöllur aðallega um bókmenntir á skemmtilegan og opinn hátt. „Við höfum líka alveg tekið fyrir lagatexta, ljóð og langar alveg að fjalla um leikrit og fleira sem tengist bókmenntum.
Við kynntumst á Bókasafni Mosfellsbæjar þar sem við höfum báðar starfað og við deilum sömu áhugamálum sem eru bókmenntir, við skrifum báðar, höfum gengið í sömu skólana, báðar búið í Danmörku og höfum svipaða sýn á lífið og tilveruna,“ segir Ástrós Hind.
Bókmenntaumræða á léttum nótum
Tanja sem er 23 ára og Ástrós Hind sem er 19 ára eru báðar Mosfellingar, Tanja er íslenskufræðingur frá HÍ og Ástrós er nemi í bókmenntafræði og ritlist.
„Þetta ævintýri byrjaði með því að ég gerði nokkra þætti með vinkonu minni úr háskólanum, svo hætti hún og mér fannst engin önnur koma til greina að halda þessu áfram með mér en Ástrós. Við reynum að vera með vikulega þætti þar sem við fjöllum um bækur sem hafa haft mikil áhrif á okkur. Okkur fannst vanta bókmenntaumræðu á léttum nótum sem er ekki of háfleyg, þannig að hver sem er getur hlustað og tengt við okkar upplifun,“ segir Ástrós Hind.
Hlustendur á öllum aldri
„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þáttunum og upplifum að okkar hlustendur eru á öllum aldri. Við reynum að vera virkar á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Facebook og látum vita þegar nýr þáttur er kominn í loftið.
Okkur finnst rosalega gaman að fá viðbrögð frá fólki og tökum vel í allar ábendingar um áhugaverð umfjöllunarefni. Við viljum vera í góðum samskiptum við okkar hlustendur og fá viðbrögð við þáttunum okkar,“ segja þær vinkonur að lokum og hvetja alla Mosfellinga til að fylgja Listin og lífið á Instagram og Facebook.