Mosfellsbakarí 40 ára
Þann 6. mars voru liðin 40 ár frá því Mosfellsbakarí opnaði í Mosfellssveit.
„Það er búið að vera mikið fjör í kringum þetta í öll þessi ár,“ segir Linda Björk Ragnarsdóttir sem stýrir bakaríinu í dag ásamt bróður sínum Hafliða Ragnarsyni og eiginkonu hans.
Mosfellsbakarí er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 1982 af hjónunum Ragnari Hafliðasyni og Áslaugu Sveinbjörnsdóttir.
Bakaríið hefur verið rekið á sömu kennitölu frá fyrsta degi og hlýtur að teljast með eldri fyritækjum í sveitinni. Árið 2001 var opnuð ný verslun á Háaleitisbraut í Reykjavík auk þess sem bakaríið í Mosfellsbæ fluttist úr gamla húsinu í Urðarholti í stærra húsnæði að Háholti árið 2007. Þá er einnig rekin konfektgerð á Kirkjustíg undir merkjum Hafliða súkkulaðimeistara og bakarameistara í fjórða ættlið.
Tvö núll tekin aftan af krónunni
Mosfellsbakarí opnaði með pompi og prakt þann 6. mars 1982 og fullt var út úr dyrum þann dag og næstu daga. „Þá höfðu nýlega verið tekin tvö núll aftan af krónunni og var innkoman fyrsta daginn rúmlega tíu þúsund krónur. Eftir það mátti þakka fyrir að velta dagsins næði 2.000 kr.,“ segir Ragnar Hafliðason.
„Þetta mæltist misjafnlega fyrir í sveitinni því sumir höfðu ekki mikla trú á því að krakkakjánar gætu látið svona fyrirtæki ganga.
Reksturinn var mjög erfiður til að byrja með en við vorum komin í of miklar skuldbindingar til að fara að leggja upp laupana. Fólk var ekki gleypa við þessari nýjung enda tók það alveg 3-4 ár að koma Mosfellingum á bragðið.
Þá bjuggu í Mosfellssveit rúmlega 3.000 manns og fólk var vant því að fá mjúk rúnstykkin í plastpokum í Kjörval eða Kaupfélaginu, ekki nýbakað með skorpu úr bakaríi.
Svo fór að ganga betur og betur efir því sem leið og bakaríið hefur vaxið og dafnað í öll þessi ár.“
Tíminn líður hratt
„Það hefur margt breyst á fjórum áratugum. Okkar stóra gæfa í þessum rekstri hefur verið gott starfsfólk og góðir viðskiptavinir. Drifkrafturinn í fyrirtækinu hefur alltaf verið metnaður til að gera betur og sinna óskum viðskiptavinarins,“ bætir Ragnar við.
„Sumir koma hér um hverja helgi eða jafnvel á hverjum degi og hægt er að stilla klukkuna eftir nokkrum þeirra. Bakaríið getur líka verið ágætis samkomustaður.
Stefnt er að því að gera eitthvað meira skemmtilegt í tilefni stórafmælisins með vorinu þegar sól hækkar á lofti,“ segja fjölskyldumeðlimirnir hálf hissa á því hvað tíminn líður hratt.