Mosfellsbær tekur á móti flóttamönnum
Fimmtudaginn 12. september kom ellefu manna kvótaflóttahópur frá Kenía til Mosfellsbæjar. Þetta er í annað skipti sem Mosfellsbær tekur við kvótaflóttafólki en í mars 2018 tók Mosfellsbær á móti tíu einstaklingum.
Vel tókst til við móttöku fyrri hópsins og er það ekki síst því að þakka hversu vel samfélagið tók á móti fólkinu. Félagsmálaráðuneytið leitaði því aftur til Mosfellsbæjar í ár til þess að taka á móti nýjum hópi.
Koma sér inn í íslenskt samfélag
Miðvikudaginn 6. nóvember stóð Mosfellsbær fyrir móttöku til heiðurs hinum nýju íbúum í Listasal bókasafns Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra buðu fólkið velkomið og notaði ráðherra tækifærið til að þakka Mosfellsbæ og öðrum sem að verkefninu koma fyrir þeirra góða framlag.
Nú eru rúmar átta vikur liðnar síðan fólkið kom og er það hægt og rólega að koma sér inn í íslenskt samfélag. Börnin eru byrjuð í skóla og tómstundum og hinir fullorðnu komnir í íslenskunám.
Stuðningur mjög mikils virði
Samstarf Mosfellsbæjar, Rauða krossins og félagsmálaráðuneytisins um verkefnið hefur verið mjög gott. „Það er einlæg ósk okkar sem að verkefninu koma að bæjarbúar taki eins vel á móti fólkinu núna og síðast.
Líf fólks í Kenía og á Íslandi er gjörólíkt og það er því margt sem okkar nýju íbúar þurfa að læra og takast á við og stuðningur okkar við þá er því mikils virði,“ segir Hulda Rútsdóttir verkefnisstjóri Mosfellsbæjar við móttöku flóttafólks.
Fólkið kemur frá Úganda og Súdan en dvaldi í flóttamannabúðum í Kenía.