Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu. Sumir eru nú þegar komnir í frí og enn aðrir farnir að telja niður dagana af tilhlökkun.

Samvera mikilvæg
Lífsmynstur margra breytist á sumrin og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Hreyfing og útivist
Sumarið er svo sannarlega tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar, förum út að ganga með fjölskyldunni, hjólum, hlaupum, förum í golf, á línuskauta og/eða hjólabretti, búum til hreyfibingó – hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir. Þarna spilar félagsskapurinn að sjálfsögðu mikilvægt hlutverk auk hreyfingar og útivistar.

Munum eftir hollustunni
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, drekkum vatn, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæðahráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Sofum nóg
Þó að það verði gaman í sumar þá þurfum við að muna að svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Hann veitir okkur hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur og er því nauðsynlegur þáttur heilbrigðra lífshátta. Svefn styrkir jafnframt ónæmiskerfið og hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti okkar við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.
Tökum höndum saman kæru Mosfellingar og höldum áfram að byggja upp fyrirmyndar Heilsueflandi samfélag í bænum okkar með vellíðan allra íbúa að leiðarljósi. Þegar við leggjumst öll á árarnar getum við nefnilega gert alveg stórkostlega hluti. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ