Mosfellsbær sem staður að búa á
Gallup gerir skoðanakönnun árlega meðal íbúa stærstu sveitarfélaga landsins og spyr almennra spurninga um ýmis atriði sem snúa að þjónustu sveitarfélaganna.
Svarendur í Mosfellsbæ 2017 voru 438 en úrtakið er að stærstum hluta unnið upp úr viðhorfahópi fyrirtækisins að viðbættu úrtaki úr Þjóðskrá. Ég hefði getað lent í síðara úrtakinu en gerði ekki. En hverju hefði ég svarað? Jú, spurningunni um hversu ánægð ég væri með bæinn minn sem stað til að búa á hefði ég óhikað svarað mjög ánægð. Því vissulega er gott að búa í Mosfellsbæ.
Hér er fallegt og skjólsælt, fjöldi skemmtilegs og áhugaverðs fólks sem fæst við margt og mikið. Hér er rólegt og gott umhverfi fyrir fjölskyldur, frábær lítill bær til að ala upp börn. Steinsnar niður í fjöru og upp á fell. Stutt í höfuðstaðinn og næturstrætó heim um helgar! Helst að búðarferðir geti tekið of langan tíma því maður hittir alltaf einhverja sem maður vill að spjalla við.
Gott silfur gulli betra?
Við lentum víst í 2. sæti 2017, sem er auðvitað fínn árangur. En um hvað er spurt í könnuninni og hvernig geta bæjaryfirvöld nýtt sér niðurstöðurnar? Undanfarið hafa niðurstöðurnar verið teknar fyrir á fundum nefnda sveitarfélagsins og nefndirnar skoðað sérstaklega þá málaflokka sem að þeim snúa. Skipulagsnefnd skoðar niðurstöður skipulagsspurningar, menningarmálanefnd sinn málaflokk, fræðslunefnd sinn o.s.frv.
Afgreiðsla er nánast samhljóða, könnunin lögð fram. Enda litlar vísbendingar um hvað það er nákvæmlega sem fólk er vansælt með þar sem óánægja kemur fram, sem og hvað er sérstaklega gott þar sem það á við. Eða hvernig ber að skilja spurninguna um ánægju almennt með skipulagsmál í bænum? Er átt við aðalskipulagið? Einstök deiliskipulög? Hringtorg? Þéttingu í miðbæ? Það er ómögulegt að vita út frá könnuninni. Eða hversu miklar forsendur hefur fólk, sem hvorki er sjálft fatlað né er í fjölskyldu með fötluðum einstaklingi, til að meta þjónustu við þann fjölbreytta hóp?
Samkvæmt könnuninni eru 20% þeirra sem notið hafa þjónustu við fatlað fólk sjálfir eða við fjölskyldumeðlim, óánægðir. En um hvað óánægjan snýst er óljóst. Könnunin kafar ekki dýpra.
Tilgangurinn
Til að fá niðurstöður könnunarinnar í hendur og leyfi til að birta þær greiðir Mosfellsbær árlega upphæð. Miðað við þá vitneskju sem niðurstöðurnar veita um álit og upplifun íbúa af þjónustunni leyfi ég mér að efast um að þessum peningum sé vel varið. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir bæjaryfirvöld að hafa sem gleggsta hugmynd um hvaða augum íbúar líta þjónustu bæjarins, til að geta brugðist við ef ánægjan dalar. En til þess að geta brugðist við, t.d. niðurstöðum um að 15% foreldra grunnskólabarna séu óánægðir með grunnskóla bæjarins, þarf mun nákvæmari könnun. Könnun sem spyr dýpri spurninga. Því megintilgangurinn með því að verja peningum í skoðanakannanir hlýtur að vera að finna út hvar gera má betur, finna veikleika til að geta unnið með þá og úr þeim, til að gera góðan bæ betri.
Tilgangurinn getur ekki verið sá að fá yfirborðskennda niðurstöðu til að flagga í einhverri sætakeppni, eða á ég að leyfa mér að segja pissukeppni, sveitarfélaga. Auðvitað getur verið upplýsandi að spyrja almennra spurninga og fá almenn svör en er ekki nóg að gera svona almenna könnun á þriggja til fjögurra ára fresti og nýta fjármuni í afmarkaðri kannanir á þjónustuþáttum þess á milli?
Silfurverðlaun á íþróttamóti eru flott og ástæða til að flagga og fagna og jafnvel að ærast af fögnuði um stundarsakir. En grunnþjónusta sveitarfélags, s.s. fræðslumálin og félagsþjónustan, aðbúnaður og líðan íbúa, er ekki íþróttakeppni heldur verkefni sem tekur ekki enda, þarf sífellt að vera í skoðun og þarf dýpra samtal um þá þætti sem bæta þarf. Dýpra samtal en þjónustukönnunin gefur færi á.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar