Mosfellsbær – náttúru- og útivistarbær
Skipulagsmál eru stór þáttur í vaxandi samfélagi okkar í Mosfellsbæ og eitt helsta hagsmunamál íbúa.
Bærinn okkar mun halda áfram að stækka á næstu árum en við ætlum að standa vörð um sérkenni Mosfellsbæjar sem „sveit í borg“ og huga vel að dýrmætri náttúrunni allt í kringum okkur. Mosfellsbær er fallegur bær, umlukinn fellum, ám og vötnum. Tengslin við náttúruna eru sterk og því er bæjarfélagið vinsælt til búsetu fyrir áhugafólk um útivist og íþróttir.
Við leggjum áfram áherslu á góð búsetuskilyrði í fallegu og öruggu umhverfi þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttum húsa- og íbúðagerðum sem uppfylla þarfir íbúa á öllum æviskeiðum. Sem heilsueflandi samfélag mun Mosfellsbær hafa heilbrigði bæjarbúa að leiðarljósi í skipulagsmálum.
Fagleg og fjölbreytt uppbygging heldur áfram
Uppbygging nýrra hverfa heldur áfram og þar er langstærsta verkefnið uppbygging á Blikastaðalandinu. Við ætlum að byggja upp stóra og fjölbreytta byggð á Blikastaðalandi með grænum svæðum inn á milli í byggðinni frá fjalli til fjöru og mun gamli Blikastaðabærinn standa áfram en honum er ætlað að vera hjartað í hverfinu. Í þessu hverfi sem og öðrum verður lögð mikil áhersla á góðar og öruggar samgöngur og stígakerfi með góðu aðgengi að hágæða almenningssamgöngum m.a. Borgarlínu.
Í öðrum nýjum hverfum verður meira haldið í hefðbundna mosfellska byggð með áherslu á minni þéttleika og sérbýli. Áfram verður lögð áhersla á góðar og fjölbreyttar samgöngur, sérstaklega fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur auk hestafólks.
Ævintýragarður – perla útivistar í Mosó
Ein helstu verðmæti Mosfellsbæjar er fjölbreytt náttúran sem umlykur bæjarfélagið og þau fjölbreyttu útistarsvæði sem við eigum. Þar er Ævintýragarðurinn perla sem er í uppbyggingu og framkvæmdir þar í gangi sem munu halda áfram. Deiliskipulag fyrir svæðið er tilbúið og verið er að klára hönnun og skipulag varðandi aðgengi að garðinum í samstarfi við Vegagerðina.
Í Ævintýragarðinum er nýbúið að opna glæsilegan samgöngustíg fyrir gangandi og hjólandi með fjórum akreinum sem annar umferðinni um garðinn mjög vel sem aðalsamgönguæðin í gegnum garðinn.
Mikil fjölbreytni verður innan Ævintýragarðsins samkvæmt skipulaginu og má þar nefna m.a. rósastíg sem mun liggja eftir svæðinu endurlöngu og ætistíg meðfram matjurtargarðinum.
Þar er einnig gert ráð fyrir fjallahjólabraut, gönguskíðabraut, stóru leiksvæði þar sem kastalinn, grillið og ærslabelgurinn eru þegar komin í notkun og á minni leiksvæðum á jöðrum garðsins verða einnig leiktæki fyrir alla aldurshópa. Settar verða upp þrekstöðvar á nokkrum stöðum í garðinum og þrektröppur, auk þess sem skíða- og sleðabrekkur verða á tveimur stöðum.
Í garðinum verður einnig tjaldsvæði og þjónustu- og veitingastaður tengdur því svo fátt eitt sé nefnt. Ævintýragarðurinn er og verður algjör útivistarperla fyrir okkur Mosfellinga til framtíðar.
Við eigum fleiri frábær útistarsvæði í Mosó og má þar til dæmis nefna þær fjölmörgu hjóla-, hlaupa- og göngleiðir í bæjarfélaginu og á fellunum í kring. Einnig má nefna Stekkjarflötina við Álafosskvos.
Það er markmið okkar að ljúka uppbyggingu útivistarsvæðis í miðbænum á næsta kjörtímabili. Þar mun glæsilegur miðbæjargarður vera hjarta miðbæjarins þar sem hægt verður að njóta útivistar í fallegu umhverfi og mun garðurinn ramma inn mannlífið í miðbænum og skerpa ásýnd miðbæjarins.
Ásgeir Sveinsson,
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar.
Frambjóðandi í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.
Helga Jóhannesdóttir,
nefndarmaður í skipulagsnefnd.
Frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.