Mosfellsbær laði nýútskrifaða kennara til starfa

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nýverið kynnti mennta- og menningarmálaráðherra hugmyndir sínar sem byggðar eru á tillögum sem unnar voru í samráði við Sambands ísl. sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóla o.fl. um að bjóða nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám sem og námsstyrk til þess að sinna lokaverkefnum samhliða starfsnáminu. Ráðherra gerir ráð fyrir að tillögurnar komi til framkvæmda á hausti komanda.
Af þessu tilefni lagði undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar fram svohljóðandi tillögu á 736. fundi bæjarstjórna þann 3. apríl sl.:
„Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir að stofna starfshóp sem fái það verkefni að móta með hvaða hætti Mosfellsbær geti laðað nýútskrifaða kennara til starfa í skólum Mosfellsbæjar í framtíðinni. “
Tillagan var samþykkt samhljóða og henni vísað til bæjarráðs til afgreiðslu. Á 1396. fundi bæjarráðs þann 24. apríl sl. var samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til umsagnar framkvæmdastjóra fræðslusviðs Mosfellsbæjar.
Brautin er því bein í þessu efni eftir samhljóða samþykktir tillögunnar í bæjarstjórn og bæjarráði og vonast undirritaður til þess að umsögn fræðslusviðs verði með þeim hætti að Mosfellsbær setji sig í stellingar til þess að, bæði vinna með tillögum ráðherra um þetta efni og í leiðinni stígi einhver þau skref að Mosfellsbær geti tryggt sér í auknum mæli réttindakennara til starfa í bæði leik- og grunnskólum bæjarins.
Í greinargerð undirritaðs með tillögunni segir þetta:
„Bæjarráði verði falið að skipa starfshópinn, en hann skoði meðal annars hvernig samstarfi skóla Mosfellsbæjar við mennta- og menningarmálaráðuneytið og háskóla vegna fyrirhugaðs starfsnáms kennaranema verði best háttað og vinni tillögur um hvernig Mosfellsbær getur laðað til starfa nýútskrifaða kennara til dæmis með því að veita þeim laun á starfsnámstíma þeirra hjá Mosfellsbæ og eða styrk þegar þeir hefja störf að lokinni útskrift, gegn því að þeir skuldbindi sig til þess að starfa í tiltekinn tíma hjá bænum.“

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi L lista Vina Mosfellsbæjar