Vinaliðaverkefni í Varmárskóla

Ása Þ. Matthíasdóttir

Ása Þ. Matthíasdóttir

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna. Það hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi.
Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum og skapa betri skólaanda. Verkefnið hófst í yngri deild skólans, þar sem nemendum í 4.-6.bekk bauðst að taka þátt en unglingadeild skólans bættist svo við þar sem nemendur þróuðu verkefnið áfram fyrir 7.-10.bekk og buðu upp á afþreyingu við sitt hæfi.
Eitt leiðarljós verkefnisins er að nemendur hlakki alla daga til að mæta í skólann sinn og auki því jákvæðni og vellíðan en aðalmarkmið verkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum.

Þeir nemendur sem eru kosnir til að vera vinaliðar fá sérstakt leikjanámskeið og leiðtogaþjálfun. Þeir sjá um að setja upp stöðvar í frímínútum á mánudegi til fimmtudags. Vinaliðar eiga að láta vita af því ef þeir halda að nemendum leiðist, séu einmana eða ef þeir verða vitni að einelti, útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan. Vinaliðar fara á fundi reglulega, ákveða skipulag verkefnanna tvær vikur fram í tímann og stýra leikjum á skólalóðinni með stuðningi fullorðinna gæsluaðila.
Mín upplifun er sú að vinaliðaverkefnið sé kærkomin viðbót sem forvörn gegn einelti. Það skiptir gríðarlega miklu máli að nemendur hafi möguleika á jákvæðri afþreyingu í frímínútum. Þegar nemendur fara út í frímínútur vita þeir upp á hvaða leiki verður boðið, leikjastöðvar eru tilbúnar og allir eru hvattir til að taka þátt. Helst af öllu myndum við vilja útrýma einelti, en á sama tíma erum við meðvituð um að það getur reynst afar erfitt.

Í dag er skynsamleg notkun upplýsingatækninnar ofarlega á baugi. Ein af áskorunum foreldra og skóla er að setja börnum okkar mörk er kemur að notkun snjalltækja. Samskipti, heilsa og heilbrigði eru og verða mikilvægir þættir í skólastarfi, að eiga samskipti augliti til auglitis við annað fólk, fá nægan svefn og borða næringarríkan mat og hreyfa okkur.
Í vinaliðafrímínútum eiga nemendur sannarlega í samskiptum við aðra, hreyfa sig og víðast hvar er lögð áhersla á að snjalltæki séu lögð til hliðar á meðan. Það hefur sýnt sig í þeim skólum sem verkefnið hefur verið innleitt en árangurinn hefur komið hratt og örugglega í ljós, nemendum til hagsbóta og það höfum við orðið vör við í okkar skóla. Það er mitt mat að vinaliðaverkefnið sé mjög góð viðbót við allt það góða starf sem fram fer í Varmárskóla.
Nú er ég að ljúka mínum störfum fyrir Varmárskóla, en þar hef ég starfað síðastliðin 13 ár sem stuðningsfulltrúi og hef verið verkefnastjóri Vinaliðaverkefnis í 4 ár.
Ég geng stolt frá borði og er þakklát fyrir þá reynslu að hafa starfað í grunnskóla og ekki síst unnið með frábæru fólki, stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki.

Ása Þ. Matthíasdóttir
verkefnastjóri vinaliðaverkefnisins í Varmárskóla