Mosfellsbær – bærinn minn og þinn

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Öflugt atvinnulíf er forsenda verðmætasköpunar og á sama hátt er traustur og ábyrgur rekstur hvers sveitarfélags undirstaða velferðar borgaranna og góðrar þjónustu við þá.
Við Sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt áherslu á að fara vel með fjármuni til þess að geta eflt enn frekar góðar stofnanir bæjarins í að veita sem besta þjónustu.
Þjónusta í þína þágu, kæri Mosfellingur, hefur alltaf verið markmið bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og það markmið verður áfram okkar leiðarstef.

Ég er stolt af því að búa í Mosfellsbæ og kalla mig Mosfelling. Nálægðin við ósnortna náttúru og víðátta móta sérstöðu bæjarins.
Við sem höfum valið að búa hér lítum á Mosfellsbæ sem valkost númer eitt hjá fólki sem kýs sambýli við náttúruna og fallegt umhverfi frekar en ys og skarkala borgarinnar. Þess vegna þarf að halda í þessi ómetanlegu gæði og vanda vel skipulag bæjarins inn í framtíðina til þess að tryggja að hér verði áfram betra að búa en annars staðar. Öflugir inniviðir eru fjárfesting til framtíðar fyrir íbúa Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er sannarlega útivistar– og íþróttabær. Öflugt íþrótta– og æskulýðsstarf hrífur til sín fólk á öllum aldri, styrkir það félagslega og líkamlega og vekur okkur öll til umhugsunar um gildi góðrar hreyfingar og holls lífernis.
Traustur rekstur er grundvöllur þess að hægt sé að byggja íþróttamannvirki s.s. íþróttahús, sundlaugar, knattspyrnu-, golf- og reiðvelli, göngu-, hjóla- og reiðstíga. Við viljum vinna með íþróttafélögum og bæjarbúum að framtíðarsýn þessara mála.

Í Mosfellsbæ eru öflugir leik– og grunnskólar sem hafa á að skipa frábæru fagfólki og það er metnaðarfullt markmið að vilja verða leiðandi í skólastarfi. En til þess að svo megi verða þarf að auka enn frekar sjálfstæði skólanna því rannsóknir sýna að það skilar sér í betra námi fyrir nemendur og meiri starfsánægju innan skólanna.
Okkar markmið eru skýr, við viljum samráð og samvinnu við skólasamfélagið og foreldrafélögin með hagsmuni barnanna okkar að leiðarljósi. Þess vegna er mikilvægt að hér verði áfram traustur og skilvirkur rekstur bæjarsjóðs.

Í bænum okkar, Mosfellsbæ, þar sem allir skipta máli, viljum við Sjálfstæðismenn tryggja öruggan, ábyrgan og skilvirkan rekstur.
Við viljum veita íbúum á öllum aldri framúrskarandi þjónustu og við viljum opin samskipti við íbúa bæjarins um málefni sem snerta okkur öll.

Kæri Mosfellingur, ég segi XD fyrir enn betri bæ, XD fyrir fólk eins og þig og mig og vona að þú viljir verða mér samferða.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir