Skipulagsvald sveitarfélaga
Skipulagsmál eru eitt þeirra lögbundnu verkefna sem sveitarfélögum ber að sinna. Með skipulagsvaldinu er kjörnum fulltrúum gert kleift að móta ásýnd og umhverfi sveitarfélagsins og setja fram framtíðarsýn um uppbyggingu innan þess.
Aðalskipulag – deiliskipulag
Stóra myndin í hverju sveitafélagi er sett fram í aðalskipulagi sem er stefnumótun til lengri tíma og ber að endurskoða með reglubundnum hætti. Allt annað skipulag, s.s. rammaskipulög og deiliskipulög sveitarfélaga, þarf að taka mið af aðalskipulagi.
Nú er það svo að borgir og bæir eru sjaldnast byggðir að fullu í einu lagi. Bæir stækka oftast jafnt og þétt eftir því sem íbúum fjölgar og atvinnulífið blómstrar. Því eru óbyggð landsvæði deiliskipulögð í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Eins getur það hent að eldri deiliskipulög séu tekin upp og þeim breytt til þess að mæta breyttum þörfum eða áherslum.
Það er því hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa mótað sér stefnu í skipulagsmálum sem fyrst og fremst tekur mið af þörfum íbúa, núverandi sem og væntanlegra, og framtíðarsýn um þróun samfélagsins. Uppbyggingarreitir á nýju eða áður skipulögðu landi taki síðan mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn.
Skipulag á forsendum hverra?
Í Mosfellsbæ er því þannig háttað að mestallt land er í einkaeigu eða á forræði lóðarhafa sem leigja það af bæjarfélaginu. Eðlilega vilja þeir sem með þessi réttindi fara hámarka þann arð sem þeir geta haft af uppbyggingu þar.
Hagsmunir þeirra aðila þurfa þó ekki endilega að fara saman við hagsmuni meginþorra íbúanna.
Uppbyggingu í bæjarlandinu á ekki að vera stýrt á forsendum verktaka, lóðarhafa eða landeigenda heldur forsendum okkar íbúanna sem munum búa hér áfram með okkar fjölskyldum.
Það er því mjög mikilvægt að skipulagsvaldinu sé beitt með þeim hætti fyrir núverandi íbúa og þá sem seinna koma að bærinn okkar haldi sínum einkennum, bjóði upp á fjölbreytt byggðamynstur, þróist í takt við nýjar áskoranir, stuðli að félagslegri blöndun og fjölskylduvænu umhverfi í tengslum við okkar dásamlegu náttúru. Að þessu munum við jafnaðarmenn stefna og berjast fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum nú sem fyrr.
Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti
á framboðslista Samfylkingarinnar