Af því að það skiptir máli

Aldís Stefánsdóttir

Tilvera okkar er full af áreiti og álitaefnum. Til dæmis hvort maður eigi að bjóða sig fram til setu í sveitastjórn eða ekki.
Það eru ótrúlega margar ástæður fyrir því að gera það ekki. Trúið mér, ég er búin að fara yfir þær allar. En á endanum varð niðurstaðan sú að ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst skipta máli hverjir stjórna og hvernig er stjórnað. Það er pláss við borðið fyrir fjölbreyttar skoðanir og það er mikilvægt að nýjar raddir fái að heyrast.

Við búum í samfélagi sem hefur alla burði til að geta þróast með kröfum nútímans og svarað kalli framtíðarinnar.
Þjónusta sveitarfélaga er gríðarlega mikilvæg og snertir hvert einasta heimili. Þegar þjónusta er þróuð, skipulögð og veitt skiptir mestu máli að hlusta á þá sem þiggja hana og ennfremur þá sem veita hana. Ég tel að reynsla mín og þekking á starfsemi sveitarfélagsins geri mig að góðum hlustanda.

En það er ekki nóg að hlusta og hafa skoðanir. Það þarf líka að hafa reynslu og þekkingu til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kunna að afla sér upplýsinga og síðast en ekki síst að hafa nægilegan styrk til að geta tekið góðar ákvarðanir. Ég trúi því að áralöng reynsla í krefjandi verkefnum á vinnumarkaði geri mig hæfa til ákvarðanatöku.

Mosfellsbær hefur allt til að bera til að vera fyrirmyndarsveitarfélag. Það er mikilvægt að við leyfum okkur að hugsa stórt og hugsa lengra. Okkar bíða áskoranir við að byggja upp Mosfellsbæ framtíðarinnar.
Eftirköst heimsfaraldursins, mótttaka og aðlögun innflytjenda, áhrif loftslagsbreytinga, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis, fjölgun íbúa og efling innviða. Þetta eru áskoranir sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir bæði til lengri og skemmri tíma. Það er af nægu að taka.

Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum og hlakka mikið til að heyra hvað brennur á íbúum í bænum. En svona verkefni vinnur enginn einn. Það skiptir máli að vera í góðum hópi fólks og eiga góða að.
Framsókn í Mosfellsbæ er fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem brennur fyrir því að auka velferð í samfélaginu okkar og treystir sér til að hlusta á íbúa og taka góðar ákvarðanir.

Þetta verður eitthvað!

Aldís Stefánsdóttir