Jana gefur kost á sér í 2. sæti

Jana Katrín Knútsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri sem fer fram 5. febrúar nk. Jana er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Jana hefur starfað innan heilbrigðis­kerfisins í um 13 ár og þar af 8 ár á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Í dag starfar hún sem sölu- og markaðsstjóri hjá Icepharma og var á lista Sjálfstæðis­flokksins í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum fyrr á þessu ári. Jana er fædd og uppalin í Mosfellsbæ, er gift Magnúsi Pálssyni lögreglumanni hjá Ríkislögreglustjóra og saman eiga þau tvö börn, Anítu 11 ára og Loga Pál 6 ára. „Mig langar til að vera þátttakandi í áframhaldandi uppbyggingu í bæjar­félaginu ásamt öflugri liðsheild og er full af krafti og vilja til góðra verka í þágu bæjarbúa.“