Ljós í nýjum jólagarði tendruð

„Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að heimsækja staðinn og eiga góðar stundir.“
Þannig hljómaði ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó á árinu 2021.

Frábær hugmynd sem vekur hlýju
Jólagarðurinn var formlega opnaður þegar Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og börn í 4. bekk í Varmárskóla tendruðu ljósin í fyrsta sinn. Andlit barnanna ljómuðu ekki síður en garðurinn enda er fátt ævintýralegra en falleg jólaljós. „Við vonum að jólagarðurinn við Hlégarð veki hlýju í brjóstum bæjarbúa og þökkum kærlega fyrir þessa frábæru hugmynd,“ segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samráðsverkefni íbúa og bæjarins
Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndirnar geta tengst því að gera Mosfellsbæ betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja og skemmtunar.