Menntastefna Mosfellsbæjar í mótun
Bærinn stækkar og börnum fjölgar.
Umhyggja og vellíðan eru orð sem heyrðust á skólaþinginu sem haldið var í Helgafellsskóla þann 11. október síðastliðinn. Þar sátu fulltrúar foreldra og lögðu fram sínar hugmyndir í vinnu við endurskoðaða menntastefnu Mosfellsbæjar. Fyrr þennan sama dag höfðu nemendur og kennarar sagt sínar skoðanir og lagt sitt af mörkum við mótun stefnunnar.
Stefnan sem nú er í mótun byggist á Skólastefnu Mosfellsbæjar frá 2010 en sú stefna gaf nýjan og metnaðarfullan tón þar sem raddir barna voru í hávegum hafðar. Þar sýndi Mosfellsbær mikið frumkvæði. Stefnan er einnig, líkt og aðrar stefnur sem gerðar hafa verið, byggð á heildarstefnumótun Mosfellsbæjar þar sem mótuð var framtíðarsýn og áherslur fyrir sveitarfélagið.
Bærinn hefur stækkað og börnum fjölgað og mikilvægt að sem flestir komi að gerð stefnunnar því þannig náum við sátt um hverjar áherslurnar eiga að vera í skólastarfi í okkar bæ. Þann 6. nóvember verður haldið íbúaþing í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ og hvetja bæjaryfirvöld Mosfellinga til þátttöku á þinginu.
Fulltrúi frá hverjum skóla
Vinna við stefnuna hófst í maí sl. og á stefnan, samkvæmt áætlun, að verða tilbúin til útgáfu og innleiðingar í byrjun árs 2022. Öll vinna og utanumhald um nýja menntastefnu er í höndum verkefnateymis og Ragnheiðar Agnarsdóttur ráðgjafa. Í verkefnateyminu eru fulltrúar frá hverjum skóla bæjarins ásamt fulltrúa frá frístundaseli.
Stöðug þróun
Þótt skólar séu í eðli sínu íhaldssamar stofnanir er stöðug þróun í gangi og sífellt verið að skoða hvernig mæta megi börnum betur í skóla fjölbreytileikans. Til að hefja þessa endurskoðun á menntastefnu voru lagðar fram nokkrar spurningar til umræðu og má nefna; hver eru og verða okkar meginviðfangsefni næstu 3-5 árin? Hvernig ætlum við að mæta áskorunum? Hver eiga gildi skólastarfs að vera? Hver eru markmið skólastarfsins? Hvernig getum við lagt mælikvarða á árangur daglegs starfs? Hvernig birtum við og miðlum mælikvörðum? Hvernig tölum við meira um það sem vel er gert? Getum við sýnt meiri samstöðu þegar upp koma áskoranir í skólastarfinu? Hver er sérstaða skólastarfs í Mosfellsbæ?
Þetta eru mikilvægar spuringar og er ég sannfærð um að við náum góðri sátt um hvert við stefnum í fræðslumálum í Mosfellsbæ.
Fræðslumál í forgangi
Nú í tíð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafa skólamálin ávallt verið í forgangi. Fyrir utan vinnu við menntastefnuna eru ótal mörg verkefni á dagskrá. Í kjölfar mikillar fjölgunar íbúa í bæjarfélaginu á síðastliðnum árum hefur verið byggður nýr grunnskóli í Helgafelli og á næsta ári verður byggður nýr leikskóli í sama hverfi.
Eins árs gömul börn er okkar nýi árgangur á ungbarnadeildum sem hefur kallað á miklar breytingar á leikskóladeildum og leikskólalóðum. Má nefna að leikskólinn Hlíð er nú eingöngu ungbarnaleikskóli en þar fer fram gríðarlega faglegt og fallegt starf með okkar yngsta fólki. Einnig má nefna átak í upplýsingatæknimálum og síðast ekki síst miklar endurbætur á skólahúsnæði og íþróttamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt.
Meðfylgjandi eru töflur sem sýna fjölgun leik- og grunnskólabarna sl. 10 ár. Þetta eru okkar mikilvægustu verkefni og verða áfram.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar