KR

KR hefur ekki verið mitt uppáhaldsíþróttafélag í gegnum tíðina. Það eru ýmsar og misgáfulegar ástæður fyrir því. En ég þekki marga ljómandi fína KR-inga, jú víst, þeir eru til og ég held að það sé mjög gaman að vera KR-ingur. Einfaldlega af því að það eru svo margir sem líta á þá sem andstæðinga númer eitt. Það getur ekki annað en gert KR-inga sterkari og aukið samheldni þeirra og samstöðu. En nóg um það, ég er ekki orðinn KR-ingur og verð það aldrei.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða þetta fornfræga félag í málgagni okkar Mosfellinga, er nýtt skipulag á KR-svæðinu sem var kynnt fyrir stuttu. Framtíðarsýnin í Vesturbænum er að tengja saman íþróttastarfsemi, íbúabyggð og ýmiss konar þjónustu við íbúa. Myndir segja oft meira en orð og myndin af framtíðarsvæði KR er einmitt þannig mynd. Mann langar næstum því að flytja í Vesturbæinn og gerast KR-ingur, næstum því …

Íþróttir og íþróttastarfsemi er ekki bara sprikl og læti. Í stórmerkilegri og nýútkominni bók Ágústar Einarssonar, Íþróttir hérlendis í alþjóðlegu samhengi, kemur fram að áhrif íþrótta til verðmætasköpunar á Íslandi sé um 4%, sem er umtalsvert. Framlag sjávarútvegs til verðmætasköpunar er í samanburði á bilinu 20% til 25%. Inni í þessum tölum er hvorki tekið tillit til forvarnahlutverks íþrótta né sjálfboðaliðastarfs. Íþróttir skipta okkur þannig öll máli, hvort sem við stundum þær reglulega eða ekki.

Það er stutt í sveitastjórnarkosningar. Hvernig væri að stofna nýtt afl, Íþróttaflokkinn, sem hefði það meginhlutverk að koma íþróttum inn í framtíðarskipulag Mosfellsbæjar á kröftugan hátt og þannig að eftir væri tekið? Ég sé fyrir mér Íþróttabæinn Mosfellsbæ með íþróttaþorp miðsvæðis og vel skipulögð íþróttasvæði í öllum hverfum. Allt tengt íbúðahúsnæði og þjónustu á einhvern hátt. Svona eins og vinir okkar í KR eru að stefna að.
Áfram Afturelding!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. október 2021